Mikilvægt að tvöfalda göngin

Frá brunaæfingu í Hvalfjarðargöngunum.
Frá brunaæfingu í Hvalfjarðargöngunum. mbl.is/Júlíus

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að það hafi ekki komið sér á óvart að Hvalfjarðargöngin hafi fengið falleinkunn í könnun EuroTap á 26 göngum í 13 Evrópuríkjum. Hann tekur fram að margt hafi breyst til batnaðar en öryggi sé enn ábótavant. Tvöfalda verði göngin.

„Þetta kemur manni að sjálfu sér ekki á óvart. Þetta eru hlutir sem hreinlega lágu fyrir,“ segir Jón Viðar í samtali við mbl.is. 

Hann segir lausnina á vandanum felast í gerð nýrra ganga, þannig að Hvalfjarðargöngin verði tvöföld. Það hafi staðið til fyrir nokkrum árum, en Jón Viðar segist hafa setið fundi með aðilum sem áttu að hanna ný göng og leysa samgöngur á milli þeirra. Eitt meginmarkmiðið með nýjum göngum sé að skapa flóttaleið komi upp eldsvoði.

Mikilvægt að hafa flóttaleið

Ef það gerist þá myndi slökkviliðið geta farið inn í hin göngin. Það gæti það athafnað sig í gegnum flóttaleiðir inn í göngin þar sem eldur logar. Um leið sé hægt að flytja fólk á milli og í öruggt skjól. Komi eitthvað upp á yrði þetta útgönguleið númer eitt.

„Við komumst þá mun nær á okkar bílum í þeim göngum og getum farið beint í verkefnið. Þá erum við ekki eins háðir flóknum og erfiðum tækjum sem við eigum ekki í dag. Og líka stóreykur líkur okkar að ná árangri í björgunaraðgerðum.“

Ekki hefur reynt á slökkviliðið við slíkar aðstæður, en að sögn Jóns Viðars hefur stundum mátt litlu muna. Slys hafi orðið í göngunum, árekstrar, minniháttar eldsvoðar og þá hafi olía lekið úr olíuflutningabíl. Það hefði getað skapað stórhættu ef eldur hefði kviknað.

Búið að bæta ýmislegt

Jón Viðar segir að slökkviliðið hafi verið mjög gagnrýnið allt frá upphafi. Það hafi m.a. verið gagnrýnt að skortur væri á ýmsum eldvarnarbúnaði. „En Spölur er búinn að gera átak í því,“ segir hann. Í göngunum sé nú ýmiskonar búnaður sem aðstoði slökkviliðsmenn í sínum störfum, s.s. myndavélar og fjarskiptabúnaður. Þá sé búið að bæta almennar umgengnisvenjur, sem séu nú til fyrirmyndar.

„Það er margt gott sem er verið að gera. En svo þarf líka að aðra hluti, sem er kannski ekki hægt að laga nema hreinlega með nýjum göngum,“ segir hann.

Snýr einnig að slökkviliðinu sjálfu

Þá segir Jón Viðar að vanbúnaðurinn snúi ekki síður að slökkviliðinu sjálfu. Það eigi t.a.m. ekki reykköfunartæki sem geti unnið lengi í jarðgöngum. Núverandi búnaður sé hannaður fyrir húsnæði og staði þar sem flóttaleiðir eru frekar stuttar.

„Þarna erum við að tala um starfsemi sem er lengst niðri og bakaleiðin er jafn löng og leiðin inn. Þú þarft alltaf að vera tryggur um þitt eigið öryggi. Að þú komist út aftur og vel það, tímanlega séð. Slíkan búnað eigum við hreinlega ekki.“ 

Jón Viðar segir að stærsti þátturinn varðandi öryggi í göngunum sé umferðarþunginn. Mikil umferð fari þar í gegn enda mikilvæg samgöngubót. „Því meiri sem umferðin er því meiri verða kröfurnar til gangnanna,“ segir hann.

Öryggismál og samgöngubætur verði hins vegar að haldast í hendur. „Það má ekki bæta samgöngurnar á kostnað öryggisins,“ segir Jón Viðar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert