„Nei. Ég tel það ekki. Ég lýsti þeirri skoðun minni innan veggja stofnunarinnar og utan," segir Kristinn Hrafnsson fréttamaður, aðspurður hvort hann telji RÚV uppfylla skyldur sínar sem ríkisfjölmiðill. Kristinn harmar að RÚV skuli ekki geta haldið úti rannsóknarblaðamennsku vegna niðurskurðar.
Kristinn er sem kunnugt er hættur störfum hjá RÚV en honum var sagt upp störfum hjá stofnuninni í vikunni.
Hann segir RÚV barmafullt af hæfileikafólki sem ekki fái notið sín vegna mikils niðurskurðar.
„Það er mikið af óvenjuhæfileikaríku fólki á RÚV og það er mjög vannýtt, vegna þess að það er búið svo illa um þetta fyrirtæki. Ég hef gagnrýnt það harðlega hvaða umhverfi við búum við. Það er mín bjargföst skoðun að við getum ekki talað um heilbrigt lýðræði á meðan við erum með lamaða fjölmiðla.
Ef ég hefði ekki þá skoðun þá teldi ég þetta starf vera lítils virði," segir Kristinn Hrafnsson blaðamaður aðspurður um hvernig niðurskurðarkrafan komi niður á fréttaþjónustu stofnunarinnar.
Inntur eftir því hvort sú leið sé fær að fórna erlendu, aðkeyptu efni til að styrkja fréttastofuna segir Kristinn meira þurfa að koma til.
Innlenda framleiðslan dýr
„Það liggur fyrir að aðkeypt efni er brot af heildarkostnaði við rekstur RÚV. Það er ekki dýrt. Það sem er dýrt er innlend framleiðsla og þar er launakostnaður hæsti liðurinn. Það er ákveðin spurning hvernig við eigum að standa að hlutunum [...] Það þarf töluvert meira að koma til en að slátra einni sápuóperu til að halda uppi vikulegum þætti með öflugri og sjálfstæðri ritstjórn sem fer ofan í saumana á málum."
Kristinn segir RÚV á krossgötum.
„Niðurskurðurinn er kominn að þeim mörkum að bæði á starfsfólk á RÚV og almenningur í landinu kröfu á því að löggjafinn setji skýrar línur. Ég held að það sé komið að ystu þolmörkum hjá stofnuninni. Löggjöfin þarf að taka þá pólitísku ákvörðun hvernig eigi að stokka upp, hvernig svo sem stjórnvöld vilja standa að því. Það segir sig sjálft að það er komið að uppgjörsmörkum. Við getum ekki endalaust skrúfað fyrir súrefnisflæðið til sjúklingsins og ætlast til þess að hann tóri einhvern veginn.
Það blasir við viðbótarniðurskurður, hvort sem hann verður 9-10% eða minni. Það þýðir að líkindum ekkert annað en uppsagnir. Því verður ekki mætt öðruvísi."
Vængstýfð fréttastofa
– Hvernig verður fréttastofa RÚV í stakk búin að sinna hlutverki sínu ef frekari uppsagnir koma til sögunnar?
„Hún verður það engan veginn.
Það segir sig sjálft í heildarsamhengi hlutanna að þegar búið er að fækka blaðamönnum þetta mikið í landinu eins og hefur verið gert með uppsögnum á reynslumiklu fólki að þá kemur það niður á blaðamennsku á tíma þegar síst skyldi. Ég tel ótækt að RÚV skuli ekki geta haldið úti ýtar8 legum fréttaskýringum vegna niðurskurðar eða forgangsröðunar eða blöndu af hvoru tveggja, bæði í útvarpi eða sjónvarpi."
Sér á eftir Fréttaaukanum
„Ég var ráðinn til starfa hjá RÚV fyrir um ári til að vinna að fréttaauka á sunnudagi sem síðar stóð til að efla. Fréttaaukinn var hins vegar lagður niður í janúar og þar með fór sú tilraun til ýtarlegra fréttaskýringa og rannsóknarblaðamennsku. Ofan á vandamál sem tengjast eignarhaldi og eigendum leggst að fjárskortur fjölmiðla er að drepa niður alla möguleika á því að fara ýtarlega ofan í saumana á hlutunum.
Það er varla hægt að halda því fram að það sé mikið um rannsóknarblaðamennsku á Íslandi í dag. Það er náttúrlega skelfilegt fyrir landið og þjóðina á tímum sem þyrftu að einkennast af stórefldum fjárframlögum til blaðamennsku […] Það er krafa og eftirspurn eftir meiri blaðamennsku í þjóðfélaginu."
Blási frekar til sóknar
Kristinn telur ótækt að almannatenglar séu orðnir jafn margir blaðamönnum.
„Á tímum niðurskurðar í fjölmiðlum er verið að stórfjölga í rannsóknarstöðugildum hjá opinberum batteríum sem eiga að fara ofan í saumana á efnahagsbrotum. Samkvæmt nýlegri frétt á RÚV er um að ræða 800 stöðugildi.
Á sama tíma eru 260 starfandi blaðamenn á Íslandi samkvæmt nýlegri rannsókn Háskóla Íslands. Það er hlálegt að þeir skuli vera um það bil jafn margir starfandi almannatenglum í landinu!
Af þessum fjölda eru í besta falli örfáir blaðamenn sem hafa meira svigrúm en dagspart til að vinna fréttir."
Kemur ekki vel út í norrænum samanburði
– Hvernig kemur fréttastofa RÚV út í samanburði við ríkisfjölmiðla á Norðurlöndunum?
„Ekki vel. Ég hef alþjóðlegan samanburð þegar kemur að þáttum þar sem sinnt er rannsóknarblaðamennsku og nefni til dæmis Uppdrag granskning hjá sænska ríkissjónvarpinu og Brennpunkt í Noregi en ég er í góðu sambandi við félag norræna rannsóknarblaðamanna. Það er enginn slíkur fréttaskýringarþáttur á ríkissjónvarpsstöðinni í dag, staða sem ber að harma."
– Telurðu að RÚV uppfylli skyldur sínar sem ríkisfjölmiðill?
„Nei. Ég tel það ekki. Ég lýsti þeirri skoðun minni innan veggja stofnunarinnar og utan," sagði Kristinn Hrafnsson fréttamaður þar sem hann var á ferð um Lundúnir.