„Þetta snýst ekki um það að finna sökudólga. Þetta er faglegt mat og samræmt hver staðan er á hlutunum, svo menn geti unnið úr þeim,“ segir Ólafur Guðmundsson, varaformaður FÍB og verkefnisstjóri EuroTap á Íslandi um úttekt sem gerð var á Hvalfjarðargöngunum.
„Þetta snýst fyrst og fremst um öryggi,“ segir Ólafur ennfremur
Þetta er í fyrsta skipti sem ítarleg úttekt er gerð á öryggi jarðganga á Íslandi. Slíkar úttektir hafa hins vegar verið gerðar í Evrópu sl. fimm ár á vegum EuroTap, sem er systurverkefni EuroRap og Euro NCAP.
Ólafur segir í samtali við mbl.is að nú séu menn komnir með mikilvægar upplýsingar um hvað sé í lagi og hvað megi betur fara.
Félag íslenskra bifreiðaeigenda átti frumkvæðið að því að EuroTap, sem FÍB er aðili að, gerði úttekt á Hvalfjarðargöngunum um mánaðarmótin apríl-maí. Fulltrúi frá samtökum þýskra bíleigenda (ADAC) skoðaði göngin hátt og lágt í tvo daga að sögn Ólafs. Kerfið sem EuroTap fylgi sé mjög þróað.
Ólafur bendir á að árið 2004 hafi Evrópusambandið samþykkt tilskipun sem fjalli um öryggi jarðgangna í Evrópu. Hún sé mun strangari en þekktist áður. Hann bendir á Spölur hafi þá þegar verið búinn að ráða verkfræðinga til að skoða göngin í ljósi nýrrar Evróputilskipunar. „Þeir eru komnir með mjög ítarlegan lista yfir það sem þeir þyrfa að gera og geta gert. Sumt af því er ekki hægt að gera nema tvöfalda göngin,“ segir Ólafur.
„Þetta er allt saman byggt á mjög ítarlegri vinnu sem er búin að fara fram í Evrópu á eðli slysa og eðli öryggisþátta í jarðgöngum. Þetta er sama úttekt sem menn fá í öllum Evrópulöndunum,“ segir hann.
Búið var að vinna mikla undirbúningsvinnu áður fulltrúi ADAC kom til landsins. FÍB var m.a. búið að fara yfir ítarlegan spurningalista með fulltrúum Spalar, félagsins sem á og rekur Hvalfjarðargöngin.
„Við kynntumst þessum verkefnum 2004 og byrjuðum á EuroRap. Við ætluðum
svo að fara í gang með EuroTap fyrir einu og hálfu ári síðan og gengum
þá í þessi samtök og fórum að kynna okkur þetta. En þá gaus upp þessi
kreppa sem sló menn aðeins út af laginu,“ segir Ólafur.
EuroTap ætlaði upphaflega að skoða 35 jarðgöng í Evrópu, og þar af þrjú á Íslandi. Á endanum voru 26 göng skoðuð í 13 Evrópuríkjum á þessu ári og voru Hvalfjarðargöngin fyrir valinu á Íslandi.
Stefnt er að því að láta skoða fleiri göng á næsta ári.
„Þó að Hvalfjarðargöngin hafi fengið þessa niðurstöðu núna þá séu hin ekki betri. Hvalfjarðagöngin eru bestu göngin okkar þó þau fái þessa niðurstöðu, myndi ég halda,“ bætir hann við.
Nú eru sex jarðgöng á Íslandi og tvö munu brátt bætast við. Ólafur segir að menn verði að athuga öryggismál í öllum göngum á Íslandi.
„Tilskipunin [ESB] er komin í gildi og við höfum frest til 2014 að gera eitthvað í málunum,“ segir Ólafur. Hann segir að hingað til hafi menn verið heppnir að ekki hafi orðið stórslys í göngunum. Möguleikinn sé hins vegar ávallt fyrir hendi.
Að sögn Ólafs er stefna stjórnvalda í þessum málum engin. Þau verði að taka af skarið og segja með beinum hætti að þau ætli að fara eftir evrópskum öryggistöðlum í vegagerð. „Við erum ekki með neina stefnu í öryggi jarðgangna á Íslandi,“ segir Ólafur.