Jón G. Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar, sagði að álagningarskrá ríkisskattstjóra, sem birt var í gær, sýndi að laun stjórnenda fyrirtækja og banka hafi ekki lækkað mikið eftir fjármálahrunið haustið 2008.
Frjáls verslun gefur í dag út sérstakt blað með upplýsingum um tekjur 3000 einstaklinga, unnar upp úr álagningarskrám. Jón sagði, að 200 launahæstu forstjórarnir hafi að meðaltali verið með 2,2 milljónir króna á mánuði í skattskyldar launatekjur á síðasta ári miðað við álagt útsvar. Þá hefðu 200 launahæstu næstráðendurnir í fyrirtækjum verið með um 1700 þúsund á mánuði og meðallaun 350 næstráðenda, sem fjallað er um í blaðinu, voru 1350 þúsund.
Þá sagði Jón að meðallaun 200 launahæstu bankamannanna hefðu verið 2 milljónir á mánuði á síðasta ári.
Samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar fékk Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Teymis, hæstu laun forstjóra í fyrirtækjum á síðasta ári, ef miðað er við skattskyldar tekjur, 13.659 þúsund krónur á mánuði. Þorsteinn M. Baldvinsson, forstjóri Samherja, var með 10.389 þúsund og Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, var með 8722 þúsund krónur á mánuði.
Guðmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, var launahæstur starfsmanna fjármálafyrirtækja samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar, en hann var með 20.386 þúsund krónur á mánuði. Óttar Pálsson, forstjóri Straums, var með 11.276 þúsund og Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, með 10.770 þúsund.
Í flokknum ýmsir menn úr atvinnulífinu var Guðmundur A. Birgisson, bóndi á Núpum, með 9905 þúsund á mánuði, Björn Traustason, húsasmíðameistari, var með 9497 þúsund og Sævar Karl Ólason, kaupmaður, með 8172 þúsund.
Af næstráðendum í fyrirtækjum var Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, launahæstur með 13.802 þúsund á mánuði, David John Kjos, framkvæmdastjóri hjá Norðuráli, var með 6621 þúsund, og Mark Burgess Keatley, fjármálastjóri Actavis Group, með 5861 þúsund krónur.
Ólafur Ragnar Grímssson, forseti Íslands, var með 1562 þúsund á mánuði á síðasta ári. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var með 1231 þúsund krónur og Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður, með 1174 þúsund. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var með 1076 þúsund krónur á mánuði.
Eyþór Arnalds, bæjarfulltrúi í Árborg, var með hæst laun í flokki sveitarstjórnarmanna, 1691 þúsund á mánuði. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ var með 1678 þúsund, og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, 1527 þúsund. Jón Gnarr Kristinsson, borgarstjóri, var með 1359 þúsund.
Í flokki starfsmanna hagsmunasamtaka og aðila vinnumarkaðarins var Jóhannes Siggeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, með 4036 þúsund á mánuði, Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, með 3776 þúsund og Guðmundur Hallvarðsson, formaður stjórnar Hrafnistu, með 1836 þúsund.
Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra í Bretlandi, var með hæstu launin í flokki embættismanna og forstjóra ríkisfyrirtækja, 2194 þúsund. Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, var með 1724 þúsund og Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri, með 1509 þúsund.
Sigurður Hafstein, hæstréttarlögmaður, er efstur í flokki lögfræðinga, með 4222 þúsund krónur. Ingvar Sveinbjörnsson, hrl., var með 3561 þúsund krónur og Bjarni Þór Óskarsson, hrl. með 2903 þúsund.
Jóhann Gunnar Jóhannsson, endurskoðandi, er með hæstar launatekjur af endurskoðendum, sem Frjáls verslun skoðar, 4482 þúsund. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri KPMG, var með 2204 þúsund og Heimir Þorsteinsson, löggiltur endurskoðandi, var með 2059 þúsund.
Ólafur Guðmundsson, augnlæknir, var tekjuhæstur lækna, með 4499 þúsund á mánuði. Þorsteinn Jóhannesson, yfirlæknir á Ísafirði, var með 2942 þúsund og Friðrik Jónsson, læknir á Stykkishólmi, með 2765 þúsund.
Í flokki flugfólks var Halldór Þ. Sigurðsson, flugstjóri hjá Icelandair, með 2107 þúsund krónur. Einar E. Guðlaugsson, flugstjóri hjá Icelandair, var með 1880 þúsund og Hilmar Baldursson, flugrekstrarstjóri og flugstjóri, var með 1872 þúsund.
Í flokki verkfræðinga var Elías Skúli Skúlason, vélaverkfræðingur, með 2561 þúsund í mánaðarlaun samkvæmt álagningarskrá. Svanlaugur Sveinsson, tæknifræðingur, var með 2107 þúsund og Pálmi Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Smáralindar, með 1979 þúsund.
Gunnlaugur Garðarsson, Akureyri, var með 5675 þúsund krónur á mánuði samkvæmt álagningarskránni, Cecil Haraldsson, Seyðisfirði, var með 1112 þúsund, og Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup á Skálholti, var með 992 þúsund krónur.
Í flokki auglýsingafólks var Ólafur Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, með 1101 þúsund á mánuði, Jón Sæmundsson, framkvæmdastjóri ENNEMM, var með 1028 þúsund og Atli Freyr Sveinsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, með 1017 þúsund.
Í flokki listamanna var Þórhallur Sigurðsson (Laddi) tekjuhæstur með 2264 þúsund krónur að jafnaði í mánaðarlaun, Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður, var með 1521 þúsund og Hallur Helgason, kvikmyndagerðarmaður, með 1362 þúsund.
Guðmundur Otri Sigurðsson, aflraunamaður, var tekjuhæstur í flokki íþróttamanna og þjálfara, með 2199 þúsund. Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, íþróttakona, var með 1957 þúsund og Willum Þór Þórsson, knattspyrnuþjálfari, með 1307 þúsund.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var tekjuhæstur fjölmiðlamanna, með 3806 þúsund, Björn Ingi Hrafnsson, fyrrverandi ritstjóri Pressunnar, var með 1810 þúsund og Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, var með 1559 þúsund.
Í flokki skólamanna var Kristján Jóhannsson, lektor HÍ og stjórnarformaður Icepharma, með 2210 þúsund á mánuði, Jón Sigurðsson, háskólakennari, með 2027 þúsund og Stefán B. Sigurðsson, rektor HA, með 1823 þúsund.
Í flokki sjómanna og útgerðarmanna var Óskar Freyr Brynjarsson, Vestmannaeyjum, með 3728 þúsund, Gylfi Viðar Guðmundsson, stýrimaður, Vestmannaeyjum, með 3083 þúsund og Guðmundur H. Guðmundsson, skipstjóri, Vestmannaeyjum, með 3015 þúsund.