Unnur G. Kristjánsdóttir, formaður nefndar um erlenda fjárfestingu, segir nefndina hafa komist að lagalega réttri niðurstöðu í Magma-málinu. Ríkisstjórnin ákvað að taka niðurstöðu nefndarinnar um lögmæti kaupa Magma Energy á viðbótarhlutafé í HS Orku til sérstakrar rannsóknar.
„Við höfum mjög góða greiningu á því, hjá okkur í nefndinni og frá Kristínu Haraldsdóttur lögfræðingi, á stjórnskipulegu hlutverki nefndarinnar, valdi hennar og ábyrgð. Við erum mjög meðvituð um hvað og hvernig við vinnum. Þannig að ef menn eru í einhverjum vafa um það eða telja að þessi nefnd hafi verið á einhverjum villigötum í þessari vinnu þá er það alfarið rangt,“ segir Unnur sem kveður það aðeins hlutverk nefndarinnar og viðskiptaráðherra að koma að þessu einstaka máli.
Í bréfi sem HS Orku barst var þeim tilkynnt að nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu að kaupin væru heimil. Sú ákvörðun var tekin 25. maí en tekið var fram að ráðherra hefði tvo mánuði til að gera athugasemd við niðurstöðuna. Þeir liðu án allra athugasemda.