Unnið að því að bæta öryggisþætti í göngunum

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri  Spalar, rekstrarfélags Hvalfjarðarganga, segir að það sé á verkáætlun að bæta öryggisþætti í göngunum, en þau fengu falleinkunn í nýrri könnun samtaka þýskra bíleigenda (ADAC). Gylfi segir, að göngin hafi staðist allar kröfur þegar þau voru byggð og að ýmislegt hafi verið bætt síðan.  

Gylfi segir, að Evrópusambandið hafi á síðustu árum gert stífari kröfur til slíkra ganga. Hann bendir á að á síðasta ári hafi verið samþykkt ákveðin verkáætlun og menn hafi frest til ársins 2014 að uppfylla nýja öryggisstaðla.

Hann segir að í könnun ADAC sé verið að gagnrýna hluti sem séu á verkáætlun. Ljóst sé að þegar menn breyti reglum sé ekki hægt að bregðast við því á einni nóttu.

„Það kostar einhverja hundruði milljarða að uppfylla þetta. En við vorum reyndar byrjaðir áður með annað,“ segir Gylfi og bætir við að villur séu í könnun samtakanna. Það sé t.d. rangt að það séu 28 km í næstu slökkvistöð heldur séu 9 km í  slökkvistöðina á Akranesi og slökkviliðsmenn þaðan séu ávallt fyrstir á staðinn ef eitthvað komi upp á í göngunum.

Verið að bera saman ólíka þætti

Gylfi segir, að verið sé að bera saman í könnunni mjög ólíka hluti. Göngin séu t.a.m. einföld og þegar verið sé að gagnrýna flóttaleiðir þá geti menn lítið gert nema önnur göng verði byggð við hliðina.

Aðspurður segir hann að könnunin hafi verið gerð byrjun maí sl. Maður frá þýsku samtökunum hafi komið til að skoða göngin í nokkrar klukkustundir. Menn hafi svo svarað um 600 spurningum. 

Mörg verkefni á verkáætlun

Af um 20 atriðum sem fjallað hafi verið um sé um helmingur þeirra á fyrrgreindri verkáætlun. Þau séu annað hvort í framkvæmd eða verði lokið 2014.

„Samgönguráðuneytið setti reglugerð og gaf frest - þetta á ekki bara við um okkur heldur önnur göng líka - til 2014 að uppfylla. Það liggur alveg fyrir  hvað þarf að gera,“ segir Gylfi. Áætlað sé að það muni kosta á bilinu 200 til 250 milljónir króna til að uppfylla allar kröfur.

Hann segir að farið sé eftir þeim kröfum sem Evrópusambandið setji. Það sé ekki alltaf samræmi á milli þess og þeirra krafa, sem EuroTap (European Tunnel Assessment Programme) setji. „Þeir eru oft með aukakröfur sem ESB er ekki með. Það verður að taka mið af því,“ segir Gylfi.

Þá verði menn að taka með í reikninginn að umferðin í gegnum Hvalfjarðargöngin sé mun minni heldur en í og við margar evrópskar stórborgir, sem könnun ADAC nær til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert