Nítíu og þrjú fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta í júní samanborið við 95 fyrirtæki í júní í fyrra, sem jafngildir rúmlega 2% fækkun milli ára. Eftir bálkum atvinnugreina voru flest gjaldþrot í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð að sögn Hagstofunnar.
Fyrstu 6 mánuði ársins 2010 er fjöldi gjaldþrota 548 sem
er tæplega 8% aukning frá sama tímabili árið 2009 þegar 508 fyrirtæki
voru tekin til gjaldþrotaskipta.
Þá voru 150 ný einkahlutafélög voru skráð í júní sl. samanborið við 237 einkahlutafélög á sama tíma í fyrra. Þetta jafngildir tæplega 37% fækkun milli ára. Einnig voru skráð 32 samlagsfélög í júní, segir Hagstofan.
Heildarfjöldi nýskráðra einkahlutafélaga er því 899 fyrri hluta ársins og hefur nýskráningum fækkað um tæplega 32% frá sama tímabili árið 2009 þegar 1322 ný einkahlutafélög voru skráð.
Eftir bálkum atvinnugreina voru flest einkahlutafélög skráð í heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum en flest samlagsfélög voru skráð í sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi.