Jóhann Hauksson, blaðamaður á DV, segir í samtali við mbl.is að aldrei hafi verið launungarmál að Birtíngur hafi kostað morgunþátt hans á Útvarpi Sögu á árunum 2006-07.
„Ég hætti á Fréttablaðinu árið 2005 með talsverðum hvelli. Hins vegar gerðist það næst að Birtíngur ákvað að styrkja Sögu. Ferill málsins er einfaldlega þessi: Ég tek því, atvinnulaus maðurinn, að vinna fyrir Sögu. Ég heyri ekkert undir Arnþrúði, heldur er þátturinn kostaður af Birtíngi. Það fyrirtæki lagði Arnþrúði til þessa kostun í eitt ár, þannig að ég skil ekki þessa framkomu hjá henni. Þetta var allt í góðu samkomulagi við Arnþrúði Karlsdóttur."
Jóhann segir að sín samskipti við Birtíng vegna launakostnaðar og annars hafi verið við Hrein Loftsson. Hreinn var á þeim tíma stjórnarmaður í Baugi Group. Á þeim tíma sem Birtíngur styrkti Jóhann var félagið í meirihlutaeigu Fjárfestingafélagsins Gaums, félags í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu hans.
„Að einu ári liðnu dró Birtíngur þessa kostun sína til baka og ég hvarf til annarra starfa hjá DV.is með Guðmundi Magnússyni, einnig á vegum Birtíngs. Arnþrúður var hundfúl yfir því að ég skyldi hætta," segir Jóhann Hauksson.