Athugasemdir við jarðgangaúttekt

Sólarhringsvakt er í gjaldhliðinu við Hvalfjarðargöng.
Sólarhringsvakt er í gjaldhliðinu við Hvalfjarðargöng. Árni Sæberg

Spölur, sem á og rekur Hvalfjarðargöng, gerir verulegar athugasemdir við úttekt EuroTap á göngunum og ekki síst umræðunar sem spannst í framhaldinu. Spölur greiddi eina milljón til EuroTapverkefnisins til að fá göngin borin saman við ýmis önnur jarðgöng í Evrópu.

Spölur segir að hafa verði fyrirvara á samanburði EuroTap. Samtökin notist við eigin mælistiku á ágæti vegganga en ekki opinbera og viðurkennda staðla.

Göngin voru á sínum tíma byggð samkvæmt gildandi stöðlum. Ný reglugerð tók gildi 2004 og lét Spölur gera úttekt á því hvað þyrfti að gera til að mæta kröfum í nýju reglugerðinni. Skýrslan var tilbúin 2009 og í framhaldi af henni var gerð áætlun til ársins 2014 um hvernig bregðast skyldi við. Af 20 atriðum sem EuroTap finnur að eru níu atriði þegar á framkvæmdaáætlun Spalar.

Þá bendir Spölur á að í samanburði 26 vegganga víðsvegar í Evrópu hafi 14 ganganna fjögurra ára og yngri en Hvalfjarðargöng. Samanburðurinn sé því í mörgum tilvikum eins og að bera saman epli og appelsínur. 

„Flest göngin eru með mun meiri umferð en Hvalfjarðargöng (þar af leiðandi aðrar öryggiskröfur til þeirra gerðar), meirihluti ganganna er tvöfaldur (tvenn göng hlið við hlið). Síðast en ekki síst virðast Hvalfjarðargöngin hafa þá sérstöðu að vera neðansjávar en flest ef ekki öll önnur göng í könnuninni eru á landi,“ segir í frétt Spalar.

Spölur segir að Þjóðverji sem kom til að taka út göngin hafi skoðað þau í klukkutíma í fylgd fulltrúa Spalar og hvorki mælt þar lýsingu né annað.  „Spalarmenn fengu hins vegar lista með einum 600 spurningum sem þeir vörðu drjúgum tíma í að svara í þágu EuroTap,“ segir í frétt Spalar.

Þá bendir Spölur á að í Hvalfjarðargöngum sé sólarhringsvakt í gjaldskýli alla daga ársins eitt mikilvægasta öryggisatriði ganganna.  Spölur spyr hvort það gildi um önnur göng sem könnuð voru.

Frétt Spalar um úttekt EuroTap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka