Búist við 16.000 á þjóðhátíð

Farþegar ganga um borð í Herjólf í Landeyjahöfn.
Farþegar ganga um borð í Herjólf í Landeyjahöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikið verður um að vera um verslunarmannahelgina. Fjölmargar hátíðir eru í boði um land allt fyrir þá sem eru á faraldsfæti jafnt sem heimamenn. Nú sem fyrr stefna flestir á Þjóðahátíð í Eyjum. Búist er við að um 16.000 gestir muni taka þátt í fjörinu um helgina.

Veðurspáin um mest allt land er ágæt og því ætti veðrið ekki að stöðva tjaldferðalanga. Mbl.is sló á þráðinn til nokkurra sem eru að standa fyrir hátíðum um helgina.

Veðurguðirnir hliðhollir Eyjamönnum

„Það er gríðarlegur mannfjöldi að streyma til Vestmannaeyja, og við erum tilbúnir með Herjólfsdal. Veðurguðirnir ætla að leika við okkur líka. Við getum ekkert annað en brosað,“ segir Páll Scheving Ingvarsson þjóðhátíðarnefndarmaður í samtali við mbl.is. Hátíðin var sett með formlegum hætti klukkan 14:30.

Hann segir að 14.000 hafi mætt á hátíðina í fyrra, en nú sé búist við á bilinu 15.500 til 16.000 gestum. Fyrstu gestirnir hafi byrjað að mæta í byrjun vikunnar og þeir séu smátt og smátt að fylla dalinn. 

Mikill mannfjöldi var á húkkaraballinu í gærkvöldi. Það fór að mestu leyti vel fram en Páll segir að ávallt sé þó misjafn sauður í mörgu fé. Þrír voru handteknir vegna líkamsárása á ballinu.

Það verður af nógu að taka í Eyjum. Í kvöld mun m.a. Björgvin Halldórsson stíga á svið og syngja fyrir Eyjamenn og gesti auk þess sem KK mun frumflytja hið eina sanna þjóðhátíðarlag.

Telur bros

Margrét Blöndal, framkvæmdarstjóri Einnar með öllu, segir góða stemningu ríkja á Akureyri. Fleiri séu mættir á tjaldsvæðið í dag en á sama tíma undanfarin ár. „Mér sýnist þetta vera allt eins og okkur dreymir um,“ segir hún. Aðspurð segir hún veðrið vera ágætt, skýjað en hlýtt.

Klukkan fjögur hefst kirkjutröppuhlaup og er mikill spenningur í kringum það að sögn Margrétar. Þá verður óskalagakvöld í Akureyrarkirkju í kvöld, sem hefur vakið mikla lukku undanfarin ár. Margt fleira verði í boði um helgina, jafnt fyrir unga sem aldna.

Hún segir aðspurð að það sé ávallt erfitt að segja nokkuð til um hversu margir muni sækja hátíðina heim á Akureyri. „Ég segist alltaf telja bros,“ segir hún og hlær.

Hverfagrill og skrúðganga

Neistaflug á Neskaupsstað hefst með formlegum hætti í kvöld. Að sögn Bjarts Sæmundssonar var hins vegar tekið forskot á sæluna í gærkvöldi, m.a. með drullubolta og Deep Purple tónleikum.

Í kvöld verður hverfagrill og skrúðganga niður í miðbæ þar sem hátíðin verðu sett. Nóg verður í boði alveg fram á sunnudag þegar hátíðinni verður slitið með brekkusöng og flugeldasýningu. „Spáin er allt í lagi og það er vonandi að það haldist,“ segir Bjartur.

Fjölmenni í drullunni

Búist er við fjölmenni á Ísafjörð þar sem keppt verður í mýrarbolta. Skráning fer fram í kvöld og svo verður dregið í riðla við hátíðlega athöfn. Loks verður haldið ball.

Klukkan 10 í fyrramálið hefst keppnin og verður spilað til klukkan 17 eða 18. Um 35 lið munu keppa og er búist við að keppendur verði rúmlega 400 talsins. Keppnin var fyrst haldin árið 2004.

„Það er að tínast inn í þorpið. Fólk er að koma og það er mikil stemning. Mótið verður hið veglegasta. Þetta er glæsilegasta umgjörðin sem við höfum haft á mótinu hingað til,“ segir Jóhann Bæring Gunnarsson, umsjónarmaður Mýrarboltans.

Sviðið er tilbúið á Ráðhústorgini á Akureyri.
Sviðið er tilbúið á Ráðhústorgini á Akureyri. mbl.is/Þorgeir
Búast má við hörkukeppni á Ísafirði í ár. Mynd úr …
Búast má við hörkukeppni á Ísafirði í ár. Mynd úr safni. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka