Herjólfur nemur vart staðar þessa helgina. Þúsundir Þjóðhátíðargesta þurfa að komast leiðar sinnar og reiða sig á ferðir skipsins. Allt gekk að óskum í fyrstu ferð frá Landeyjum í morgun, þrátt fyrir að ferð næturinnar hafi seinkað. Mbl.is slóst í för og tók púlsinn á áhöfninni og ferðalöngum.
Samgöngur hafa breyst talsvert frá því á síðustu Þjóðhátíð. Nú siglir Herjólfur ekki lengur frá Þorlákshöfn, heldur hinni nýju Landeyjahöfn sem var opnuð fyrir stuttu. Með breytingunni hefur sjóferðin styst verulega, en aksturinn er lengri. Það tekur um tvær klukkustundir að aka frá Reykjavík til Landeyja.
Ferðalangar frá höfuðborginni þurftu því að vakna ansi snemma í morgun til að komast um borð í tæka tíð. Margir nýttu sjóferðina til að hvíla sig. Aðrir hörkuðu af sér og skáluðu fyrir upphafi Þjóðhátíðar, sem margir hafa beðið spenntir eftir í marga mánuði.