Herjólfur tafðist um þrjá tíma

Herjólfur á leið inn í Landeyjahöfn
Herjólfur á leið inn í Landeyjahöfn Rax / Ragnar Axelsson

Þriggja tíma töf var á ferð Herjólfs frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja í nótt. Skipið sem átti að leggja af stað klukkan þrjú fór ekki fyrr en klukkan sex í morgun. Óhagstæð sjávarskilyrði urðu til þess að ekki var nóg dýpi í höfninni og sat Herjólfur fastur um tíma. Verið er að athuga með ferðina klukkan þrjú, en nánari upplýsingar liggja fyrir um hádegisbil.

Farþegar tóku seinkunni í nótt vel miðað við aðstæður, að sögn Guðmundar Pedersen, rekstrarstjóra Herjólfs. Farþegum var boðið upp á kaffi og var fjör í mannskapnum. Í tölvubréfi sem fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, barst frá farþega segir hins vegar að farþegar hafi margir hverjir verið bálreiðir, enda komnir alla leið að Landeyjahöfn klukkan þrjú að nóttu.

Spurður hvort þetta verði viðvarandi vandamál um helgina segir Guðmundur, að mesta umferðin ætti að vera búin áður en kemur að því að fella fleiri ferðir niður. Þó hefur verið ákveðið að flýta ferð Herjólfs frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja sem fara átti á hádegi. Ferðin verður þess í stað farin klukkan 11.30.

Byggð í sjó við svartan sand

Landeyjahöfn er um margt sérstök. Hún er byggð út í sjó við svartan sand hafnlausrar suðurstrandar landsins. Hún er innan við hlið í sandrifinu, í skjóli Heimaeyjar. Markarfljót ber stöðugt fram mikið efni sem berst meðfram ströndinni. Búist er við að dæla þurfi efni upp úr höfninni og innsiglingu hennar á næstu árum þótt höfnin sé þannig hönnuð að náttúruöflin sjái að mestu um það verk.

Herjólfur þykir ekki heppilegt skip til að sigla á þessari ferjuleið og búast má við auknum frátöfum eftir þrjú ár eða svo, en ættu þó að vera litlar á meðan djúpt er á sandrifinu við höfnina. Einnig er hætt við að erfitt verði fyrir Herjólf að athafna sig í höfninni við vissar aðstæður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert