„Þetta eru auðvitað mjög vond tíðindi. Ef við dettum niður um flokk, tala nú ekki um ef við lendum í neðsta flokki, mun það hafa gríðarleg áhrif á kostnað okkar af lántöku. Vaxtaálag okkar mun aukast mjög mikið,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um neikvæða breytingu á horfum Moody's.
Eins og rakið hefur verið á fréttavef Morgunblaðsins hefur Moody's breytt horfunum fyrir lánshæfismat Íslands úr stöðugum í neikvæðar.
Gylfi telur að ef Ísland falli niður um flokk geti það haft mjög alvarlegar afleiðingar.
„Þar að auki munu æðimargir stofnanafjárfestar ekki geta veitt okkur fyrirgreiðslu eða tekið þátt í fjárfestingu hér á landi vegna þess að þeir mega ekki vera í löndum þar sem áhættumatið er svona lágt. Þetta eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi fyrir okkur og tengjast þeirri óvissu sem við búum við. Það hefur ekki tekist að ljúka málum, hvorki Icesave og ég tala nú ekki um áhrifin af gengisdómi Hæstaréttar. Það er mikil óvissa um framhaldið.“
Gylfi óttast að tíðindin geti seinkað uppbyggingu hagkerfisins.
„Þetta getur því miður haft þau áhrif að seinka verulega endurreisninni og leitt til þess að það verði erfiðara fyrir okkur að fjármagna framkvæmdir, meðal annars í stóriðjunni, eða orkuframkvæmdir. Þetta getur seinkað endurreisninni og leitt til þess að atvinnuleysi verði bæði meira og meira langvarandi heldur en við hefðum vonast til. Þetta mun vissulega gera okkur erfiðara að komast út úr kreppunni.“