Mokað úr Landeyjahöfn

Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn.
Herjólfur siglir inn í Landeyjahöfn. mbl.is/RAX

Grafa er nú notuð til að moka úr Landeyjahöfn en áætlun Herjólfs raskaðist mikið í gærkvöldi eftir að skipið snerti botninn. Að sögn Gísla Viggóssonar, staðgengis siglingamálastjóra, mun Herjólfur sigla klukkan 15 í dag og ekki er útlit fyrir að frekari vandamál komi upp vegna þessa.

Gísli segir, að Landeyjahöfn sé í rauninni ekki fullgerð enn og ekki sé t.d. búið að ljúka við vestari brimvarnargarðinn og að fulldýpka höfnina. Þá hafi flóð úr Eyjafjallafjallajökli í apríl flutt með sér aur sem sest hafi á hafsbotninn og erfitt sé að eiga við. 

Hann sagði að Herjólfur hefði farið 50 ferðir frá því höfnin var opnuð formlega í síðustu viku og ekkert hafi komið upp á. Hins vegar séu skrúfur skipsins öflugar og þær róti upp aurnum á botninum þegar verið er að snúa skipinu. Þá hefði verið óvenju smástreymt í nótt.

Þegar skipið var að fara af stað undir miðnættið í nótt fann skipstjórinn að skipið tók augnablik niðri. Þess vegna hefði verið ákveðið að fresta ferð skipsins í nótt meðan botninn var mældur og útfallið var mest. Hefði komið fram ójafna og væri verið að moka úr hafnarbotninum. 

Um tíma var talið að fella þyrfti niður ferð skipsins klukkan 15 en af því varð ekki og mun skipið sigla samkvæmt áætlun. Gísli sagði einnig, að ekki væri útlit fyrir stórstreymi á ný fyrr en um miðjan ágúst og þá yrði væntanlega búið að ganga betur frá höfninni. 

Gísli segir, að vandamál eins og kom upp í Landeyjahöfn í nótt, séu ekki óalgengt í nýjum höfnum þegar botninn hefur ekki sest til. Þetta hefði meðal annars gerst í Seyðisfirði þegar þar var gerð ný höfn fyrir ferjuna Norrænu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert