Óvenjuleg snekkja sigldi inn sundin við Reykjavík í dag. Um er að ræða Octopus, sem er ein stærsta snekkja heims og er í eigu Paul Allen, sem stofnaði Microsoft ásamt Bill Gates á sínum tíma.
Octopus er sögð vera 9. stærsta snekkja heims og sú þriðja stærsta í einkaeigu. Hún er 126 metrar að lengd og á henni eru tvö þyrluþilför og í lestinni eru sagðir leynast tveir rannsóknarkafbátar.
Snekkjan var smíðuð í Lürssen í Bremen og HDW í Kiel.
Paul Allen, sem er 57 ára að aldri, er talinn 37. ríkasti maður heims og eignir hans eru metnar á 13,5 milljarða dala. Hann er forstjóri fjárfestingarfélagsins Vulcan Inc. Þá á hann einnig þrjú atvinnumannalið í íþróttum, þar á meðal körfuboltaliðið Portland Trail Blazers.