Mikið fjölmenni er í Borgarnesi þar sem ungmennalandsmót Ungmennafélags Íslands stendur nú sem hæst.
Segja heimamenn að aldrei hafi verið annar eins fólksfjöldi saman kominn í bænum en gestir eru á annan tug þúsunda. Iðar allt af lífi og er gangandi fólk út um allt. Þá hefur veðrið verið eins og best er á kosið og hefur hitinn verið um og yfir 20 stig.
Að sögn Theodórs Þórðarsonar, yfirlögregluþjóns í Borgarnesi, hefur allt gengið eins og best er á kosið, þar á meðal umferðin þótt talsverð vegalengd sé á milli tjaldsvæðisins, sem er fyrir norðan bæinn, og keppnissvæðisins inni í bænum. Sérstaklega sé áberandi hve ökumenn eru tillitssamir og liðki hver fyrir öðrum á gatnamótum.
Theodór sagði, að ýmsar ráðstafanir, sem gerðar voru til að greiða fyrir umferð í bænum, hafi gefist vel. Til greina kom að veita umferð um hringveginn fram hjá Borgarnesi en til þess hefur ekki þurft að koma.
Mótshaldið hefur farið hið besta fram og hefur lögreglan lítið þurft að skipta sér af gestum. Þá lætur Theodór einnig vel yfir gestum á sumarhúsasvæðum í Borgarfirði, svo sem í Húsafelli og við Skorradalsvatn.