Aðeins eitt af þremur stærstu orkufyrirtækjum landsins hafa greitt arð til eigenda sinna síðustu tvö árin. Fyrir hrun námu þessar arðgreiðslur um 2,5 milljörðum króna á ári en síðustu tvö ár hefur aðeins Orkuveita Reykjavíkur greitt arð sem hefur numið 800 milljónum króna á ári.
Í tengslum við kaup kanadíska fyrirtækisins Magma á HS Orku hefur mikið verið fjallað um hvort arður af orkuauðlindinni megi fara til útlendinga. Lengst af hafa öll orkufyrirtæki landsins verið í eigu ríkis og sveitarfélaga. Þetta breyttist þegar ríkið og síðar sveitarfélögin á Suðurnesjum ákváðu að selja hlut sinni í Hitaveitu Suðurnesja sem nú heitir HS Orka.
Í tíð síðustu ríkisstjórnar var lögum breytt sem tryggir að eignarhald á sjálfri orkuauðlindinni verður ávallt hjá hinu opinbera. Hins vegar má hið opinbera leigja afnot af auðlindinni til einkaaðila, enda komi leigugjald fyrir. Þetta fyrirkomulag er hjá HS Orku, en þar hefur verið gerður leigusamningur sem er til 65 ára.
Það er eigendanna að taka ákvörðun um hversu mikill arður er greiddur úr orkufyrirtækjunum. Orkuveita Reykjavíkur hefur alltaf greitt mun meiri arð úr fyrirtækinu til eigenda sinna en Landsvirkjun. Arðgreiðslur Landsvirkjunar hafa verið svipaðar og hjá HS Orku þó að Landsvirkjun sé margfalt stærra fyrirtæki.
Orkuveita Reykjavíkur hefur oft verið kölluð mjólkurkýr Reykvíkinga enda hafa sjálfsagt margar sveitarstjórnir öfundað borgarstjórn Reykjavíkur að fá 1,5 milljarða í arð frá OR eins og gerðist á árunum fyrir hrun. OR er hins vegar í dag risi á brauðfótum og margir telja afar hæpið að fyrirtæki sem skuldar 240 milljarða og á tæplega fyrir afborgun skulda sé að borga arð.
Um síðustu áramót skulduðu þrjú stærstu orkufyrirtæki landsins rúmlega 600 milljarða króna. Stærstur hluti þessara skulda er í erlendri mynt. Vaxtagreiðslur vegna skuldanna nema tugum milljarða á hverju ári. Það má því kannski segja að stór hluti af þeim hagnaði sem myndast við rekstur virkjana fari til útlendra banka í formi vaxtagreiðslna.
Þórólfur er þeirrar skoðunar að sumar fjárfestingar orkufyrirtækjanna hafi ekki verið nægilega arðsamar. Hann nefnir Kárahnjúkavirkjun sérstaklega í því sambandi. Sú arðsemi sem menn hafi talið að kæmi út úr þeirri virkjun hafi að nokkru leyti byggst á lágum vöxtum. Síðan hafi skuldatryggingarálag hækkað mikið sem þýði að endurfjármögnun lána verði mun kostnaðarsamari en menn sáu fyrir.