Magma Energy hótar því að seinka eða hætta við stærstu erlendu fjárfestinguna á Íslandi frá bankahruninu. Þetta kemur fram á vef Financial Times. Þar er haft eftir Ross Beaty, forstjóra Magma, að félagið vilji ekki hætta við en það hafi skyldum að gegna gagnvart hluthöfum.
Til stendur að ljúka yfirtöku Magma á HS orku í vikunni, samkvæmt vef Financial Times en vegna ákvörðunar stjórnvalda um að setja rannsókn af stað varðandi kaupin þá sé samningurinn í uppnámi.
Hélt að fjárfestingu Magma yrði fagnað
Ross Beaty segir í viðtali við FT að Magma geti enn reynt að ljúka samningnum líkt og til stóð en félagið íhugi stöðu sína, hvort seinka eigi kaupunum eða hætta við þau vegna pólitískrar óvissu.
„Við viljum ekki láta okkur hverfa. En við erum með hluthafa sem eru að verða ansi vonsviknir með það sem er að gerast," segir Beaty við FT.
Beaty segist hafa talið að fjárfestingu Magma yrði fagnað á sama tíma og efnahagsörðugleikar ríki á Íslandi. Þess í stað hafi verið ráðist á fyrirtækið og það ásakað um að ætla sér að ræna og rupla náttúruauðlindum og að hafa nýtt sér skúffufyrirtæki í Svíþjóð til þess að fara á svig við reglur sem banna fjárfestingu fyrirtækja í ríkjum fyrir utan evrópska efnahagssvæðið í íslenskum orkufyrirtækjum.
Í frétt FT er vitað til orða tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur sem sagði nýverið í samtali við FT að Íslendingar óttuðust að vera þriðja heims þrælar með því að selja burt allar náttúruauðlindir sínar.
Magma gert að blóraböggli fyrir allt sem miður fór
Segir Beaty að Magma sé gert að blóraböggli fyrir alla þá slæmu viðskiptahætti sem leiddu til fjármálahrunsins á sínum tíma. Fyrirtækið þurfi að gjalda fyrir þann mikla ótta og vantraust sem myndaðist í kjölfar hrunsins.
Hann varar við því að fjandskapur í garð Magma geti fælt aðra útlenda fjárfesta frá á sama tíma og Íslendingar strita við að byggja upp efnahag landsins.