„Mótið hefur gengið mjög vel og frábær stemmning. Hólmarar hafa tekið okkur mjög vel og mótið hefur vakið mikla athygli í bænum,“ sagði Jón Þór Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Kotmóts hvítasunnumanna í Stykkishólmi. Hann taldi að mótsgestir hafi verið 1.800 til 2.000 manns í gær.
„Aðstaðan sem við fengum er frábær og til fyrirmyndar og mótttökur Stykkishólmsbæjar sannarlega höfðinglegar. Það hefur allt gengið að óskum. Veðrið hefur líka verið mjög gott. Í gær var fín brenna og brekkusöngur undir stjórn Geirs Jóns Þórissonar stórsöngvara og rösklega tekið undir í söngnum,“ sagði Jón Þór.