Önnur nótt verslunarmannahelgarinnar gekk stóráfallalítið fyrir sig á helstu hátíðum landsins. Enn sem komið er hafa tiltölulega fá fíkniefnamál komið upp og líkamleg átök milli manna verið fátíð. Enn hafa ekki borist fregnir af neinum kynferðisbrotum.
Unglingalandsmót Ungmennafélag Íslands, sem haldið er í Borgarnesi, hefur að sögn lögreglu þar farið mjög vel fram. Nóttin var því tiltölulega róleg.
Á Ísafirði, þar sem Mýrarboltinn fer fram, var rólegt í gærkvöldi og nótt. Nokkur drykkja var á svæðinu en stemmningin var að sögn lögreglu góð og fólk skemmti sér að mestu af háttvísi. Gerði vakthafandi lögreglumaður því í skóna að leikmenn væru dasaðir eftir átök dagsins og því ekki til mikilla stórræða. Skemmtanahald leystist að miklu leyti upp um fimmleytið í nótt en þá skall á töluverð þoka að sögn lögreglumanns.
Rólegt var í Neskaupstað í nótt en þar er hátíðin Neistaflug haldin. Lögreglan sinnti að sögn lögreglumanns á vakt sínum hefðbundnu verkefnum en hann kvað ekkert markvert vera skráð í dagbók lögreglu þar eystra eftir nóttina. Nokkuð svalt var í nótt en þurrt.
Að sögn vakthafandi lögreglumanns á Siglufirði var nóttin „bara ljúf“ og gekk stóráfallalaust fyrir sig. Þar fer Síldarævintýrið fram.
Í Vestmannaeyjum var nóttin óvenju róleg miðað við aðfaranótt laugardags um Þjóðhátíð. Þrír gistu þó fangageymslur og ein líkamsárás verður að líkindum kærð. Nokkuð af örvandi efnum fannst.
Nóttin fór ágætlega fram á Akureyri þar sem hátíðin Ein með öllu/Þriggja daga vakt er haldin.
Lögreglumaður á vakt á höfuðborgrasvæðinu lýsti borginni þannig að hún væri sem á virkum degi. Nokkrir gistu þó fangageymslur, ölvaðir menn og góðkunningjar lögreglu.