Ósáttur við Iceland Express

Iceland Express.
Iceland Express.

Flugfarþegi sem kom með Iceland Express frá Bergamo á Ítalíu í dag sagði að sér hafi brugðið við að lesa svar talsmanns flugfélagsins um gang flugsins frá Bergamo í frétt á mbl.is. Hann var ekki ánægður með þjónustu Iceland Express vegna seinkunar flugsins.

„Flugið frá Bergamo átti að fara klukkan korter í ellefu í gærkvöldi að íslenskum tíma samkvæmt áætlun,“ sagði farþeginn sem óskaði nafnleyndar. „Þegar við komum upp úr klukkan átta (að íslenskum tíma) að skrá okkur inn var ekki búið að láta okkur vita af seinkuninni. Hvorki SMS né annað.“

Eftir heimkomuna kom í ljós að þeim hafði verið sendur tölvupóstur um seinkunina, en hann kom ekki að gagni þar sem þau voru í ferðalaginu.

„Þeir breyttu og drógu brottfarartímann endalaust. Við vorum farin að fylgjast með brottafartímanum á flugvélinni héðan að heiman. Þá lá ljóst fyrir að vélin yrði aldrei komin til Ítalíu fyrr en undir morgun. Hjá okkur var brottfarartímanum seinkað fyrst til kl. 02.15, svo 04.45 og svo 06.45. Vélin fór í loftið klukkan 9.15 í morgun að íslenskum tíma.

Farþegarnir, langflestir Ítalir, dvöldu í flugstöðinni. Þar var allri þjónusta lokað um eða upp úr miðnætti og engin aðstaða. Við vorum með börn með okkur,“ sagði farþeginn.

Hann kvaðst vera mjög ósáttur við framkomu flugfélagsins. „Þeir hljóta hafa séð fyrirfram hvað vélinni myndi seinka. Þeir hefðu átt að setja farþegana á hótel samkvæmt gildandi reglum. Það er lítið í boði í tómri flugstöð, ekki síst fyrir fólk með börn.

Ég tel ljóst að Iceland Express sé eitthvað að reyna að fegra þetta frá því sem í raun gerðist. Þeir eiga ekki að komast upp með svona vitleysu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert