Ingibjörg Sólrún ekki formaður nefndar SÞ

Reuters

Sameinuðu þjóðirnar hafa tilkynnt hverjir muni sitja í nefnd sem rannsaka á árás Ísraelshers í maí á skipalest með hjálpargögn og vistir til Gaza í trássi við hafnbann Ísraelsmanna. Að minnsta kosti 9 farþegar um borð létu lífið. Fjöldi þjóðarleiðtoga um allan heim fordæmdi árásina og krafðist þess að hún yrði rannsökuð. 

Fjórir sitja í nefndinni en fyrrum forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Geoffrey Palmer, mun stýra nefndinni, að sögn Ban Ki-moon. Auk hans er Ísraeli og Tyrki í nefndinni. Nefndin tekur til starfa þann 10. ágúst og á að skila fyrstu skýrslu sinni um miðjan september.

Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrum utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, var í júlí boðin formennska í nefndinni. Staðfesti hún það í samtali við mbl.is í júlí. Aðrir nefndarmenn en Palmer hafa ekki verið nafngreindir.

Hafsvæðið undan Gaza-ströndinni hefur verið í herkví síðan árið 2007 en í skipunum voru ýmiss konar hjálpargögn. Árásin var gerð þann 31. maí síðastliðinn.

Ingibjörg Sólrún staðfesti við mbl.is í júlí að forseti Mannréttindaráðs SÞ hefði rætt við hana um starfið. Hún kvað málið viðkvæmt og í því þyrfti að gæta að mörgum sjónarmiðum og raunar væri ekkert frágengið ennþá.

Ísraelar hafa samþykkt að vinna með nefndinni að beiðni framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon. Fréttavefurinn Haaretz greinir frá þessu í dag en þetta hefur ekki fengist staðfest hjá stjórnvöldum í Ísrael.

Ísrealar segja þungvopnaða hermenn sína hafa drepið níu Tyrki, vopnaða hnífum og kylfum, í árásinni á skipalestina, í sjálfsvörn. Tyrkir hafa krafið ísraelsk stjórnvöld um afsökunarbeiðni og kallað árásina hryðjuverk. Ísraelar segjast ekki munu biðjast afsökunar á því að verja hendur sínar.

Síðan árásin var gerð hafa Ísraelar slakað nokkuð á herkví sinni á hafsvæðinu úti fyrir Gaza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert