Allt bendir til að sauðaþjófur hafi lagt leið sína um Dalina um helgina. Bóndi einn hringdi í lögregluna í dag og tilkynnti að hann hefði fundið leifar af lambi undir brúnni yfir Miðá í Mið-Dölum. Búið var að flá lambið og taka innan úr. Skrokkurinn var horfinn en slögin skorin frá og skilin eftir.
Að sögn lögreglunnar í Búðardal virðist svo sem lambinu hafi verið slátrað á staðnum og þykir það nokkuð sérstakt. Málið þykir mjög sérstakt. Það hefur ekki gerst svo lengi sem elstu menn muna að jafn augljós sönnunargögn um sauðaþjófnað að yfirlögðu ráði hafi fundist á víðavangi í Dölunum.