Skemmtanahald fór víðast hvar vel fram í gærkvöldi og nótt. Á Akureyri voru útitónleikar í gærkvöldi og fór allt vel fram í veðurblíðu. Tveir voru teknir fyrir ölvunarakstur í bænum en að öðru leyti var þessi síðasta nótt verslunarmannahelgarinnar mjög góð að sögn lögreglu.
Á Ísafirði lauk Mýrarboltahátíðinni með stórdansleik í gærkvöldi og var nokkur ölvun og erilsamt hjá lögreglu í nótt.
Unglingalandsmótinu í Borgarnesi var slitið í gærkvöldi og lauk helginni með stórri flugeldasýningu um miðnættið en að henni lokinni var nokkur umferð út úr bænum og augljóst að margir landsmótsgestir vildu komast heim í þurru en spáð er rigningu í Borgarnesi í dag.
Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum fór skemmtanahald í Herjólfsdal ágætlega fram í nótt, gleðin stóð yfir fram undir morgun en upp úr klukkan fimm hóf að rigna og mun þá hafa „slokknað" í mannskapnum.
Enn rignir talsvert í Vestmannaeyjum en þó er útlit er fyrir að hægt verði að halda uppi flugi milli lands og Eyja.