„Wikileaks er með netþjóna um allan heim sem spegla hver annan svo út frá tæknilegum forsendum væri ómögulegt fyrir yfirvöld á Íslandi að loka síðunni,“ segir Kristinn Hrafnsson, blaðamaður, í samtali við mbl.is.
Hann hefur sem kunnugt er starfað í ríkum mæli með aðstandendum vefsíðunnar Wikileaks undanfarið ár og gefur lítið út fyrir orð Liz Cheney í viðtali á Fox fréttastöðinni um að loka skuli Wikileaks síðunni.
„Orð þessarar ágætu konu sýna fullkomna vanþekkingu á viðfangsefninu og eflaust jafnmikla vanþekkingu á málefninu og málstaðnum sem Wikileaks er að berjast fyrir. Enda ekki að undra miðað við faðernið.“
Þá segir Kristinn ótrúlegt að heyra t.d. yfirmenn hermála í Bandaríkjunum dylgja um blóði drifnar hendur Julian Assange og finnst skjóta skökku við að hinir sömu setji sig á svo háan, móralskan hest.
Einnig séu það eintómar sögusagnir að birting leyniskjalanna hafi leitt til dauða fólks sem þar sé getið.
„The Times í Lundúnum kannaði afdrif þeirra sem eru nafngreindir í leyniskjölunum og fundu einn mann sem er látinn. En hann lést fyrir tveimur árum svo það er erfitt að setja blóð hans á hendur Julian Assange eða annarra hjá Wikileaks.“