34 þingmenn af 63 ætla að greiða atkvæði gegn því að bönkunum verði bjargað á nýjan leik, samkvæmt frétt Bloomberg fréttastofunnar. Eru allir þingmenn stjórnarandstöðunnar og þrír þingmenn Vinstri grænna andvígir því að veita bönkunum nýtt fjármagn.
Alþingi getur komið í veg fyrir tilraunir ríkisstjórnarinnar til að endurfjármagna íslensku bankana ef þeir þurfa á nýju fjármagna að halda vegna dóma um ólögmæti gengistryggingu lána, samkvæmt Bloomberg.
Matsfyrirtækið Moody's breytti í síðustu viku horfum á Baa3 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands fyrir innlendar og erlendar skuldbindingar úr stöðugum í neikvæðar. Moody's breytti einnig horfum á lánshæfisþaki Íslands fyrir erlendar langtíma- og skammtímaskuldbindinga úr stöðugum í neikvæðar.
„Þessi breyting á lánshæfismati á rætur sínar að rekja til nýlegs dóms
hæstaréttar um ólögmæti gengisbundinna lána og áframhaldandi erfiðleika
stjórnvalda við að leysa Icesave deiluna við bresk og hollensk
stjórnvöld. Dómur hæstaréttar getur haft þau áhrif að bankarnir tapi
töluverðu fé á gengisbundnum lánum til innlendra lántaka og gæti
bankakerfið því þurft aukinn stuðning frá stjórnvöldum. Takist ekki gæti
það leitt til þess að Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn haldi
að sér höndum hvað varðar frekari lánafyrirgreiðslu til íslenskra
stjórnvalda," segir í lauslegri þýðingu Seðlabanka Íslands á ákvörðun Moody's.
Moody‘s bendir á að skuldastaða íslenska ríkisins sé nú þegar há miðað við núverandi lánshæfismat þess. Jafnframt sé því spáð að heildarskuldir ríkisins nái 150% af vergri landsframleiðslu á þessu ári og að hreinar skuldir þess verði 86%. Samkvæmt spá fyrir næsta ár munu hreinar skuldir nálgast 100% af vergri landsframleiðslu.
Guðfríður Lilja, Ögmundur og Lilja Mósesdóttir á móti
Bloomberg hefur eftir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, VG, að hún muni ekki styðja endurfjármögnun bankanna. Nægu fé hafi verið dælt inn í bankakerfið. Fjármálakerfið sé allt of stórt.
Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, segir það óþolandi að hagnaður renni alltaf til einkaaðila á meðan tapið falli á skattgreiðendur.
Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, segir að ríkisstjórnin verði að forðast það að þurfa að endurfjármagna bankanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki, Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir, VG, staðfestu öll andstöðu sína við endurfjármögnun bankanna við fréttamann Bloomberg.
Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, telur að í nóvember í síðasta lagi muni liggja fyrir hversu mikið fé bankarnir þurfa á að halda.
Svipað ástand og sumarið 2008
Dómur Hæstaréttar féll rétt fyrir sumarleyfi í Hæstarétti en dómurinn kemur ekki saman aftur fyrr en í september. Gísli Hauksson, hagfræðingur hjá GAM Management hf. segir ástandið nú minna mjög á sumarið 2008 þegar þörf var á að erfiðar ákvarðanir væru teknar. „Við stöndum nú frammi fyrir erfiðari ákvarðanatöku en stjórnsýslan er í sumarleyfi."
Gísli segir að ef ekki verður sett nýtt fjármagn inn í bankana geti það þýtt að Arion banki og Íslandsbanki verði neyddir til sameiningar. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segir að fjármálageirinn sé of stór á Íslandi svo kannski verður þetta til þess að straumlínulaga kerfið, segir Gísli í samtali við Bloomberg.