Ráðist gegn langtímaatvinnuleysi

Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun eru núna rúmlega 14 þúsund manns …
Samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun eru núna rúmlega 14 þúsund manns án vinnu. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Vinnumálastofnun hleypti í dag af stað sérstöku átaki gegn afleiðingum langtímaatvinnuleysis. Átakið hefur fengið heitið ÞOR – þekking og reynsla og er markmiðið að virkja þann hóp einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir í tólf mánuði eða lengur til þátttöku í fjölbreytilegum vinnumarkaðsúrræðum. 


Á næstu mánuðum verða allir þessir einstaklingar kallaðir til ráðgjafafundar á vegum Vinnumálastofnunar og þeim kynnt tækifæri og skyldur þeirra til þátttöku úrræðum sem eiga að auka möguleika þeirra í atvinnuleitinni. Um 4.000 manns hafa nú verið atvinnulausir í eitt ár eða lengur og hefur Vinnumálastofnun sett sér það markmið að nálgast þá alla fyrir 1. nóvember nk.

Leitað hefur verið samstarfs við fjölda fræðsluaðila, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka um virkniúrræði. Þá hefur Vinnumálastofnun einnig átt í viðræðum við símenntunardeildir háskólanna, sem lítið hafa verið nýttir atvinnuleitendum til hagsbóta. Um 70 úrræði standa atvinnulausum til boða og eru þau mismunandi eftir menntun og starfsreynslu hvers og eins, en Vinnumálastofnun mun greiða fyrir þau vinnumarkaðsúrræði sem boðið verður upp á og hefur til þess um 450 milljónir króna.

Fimm nýir ráðgjafar hafa verið ráðnir til að sinna átakinu, auk þess sem tveir  ráðgjafar verði fluttir úr verkefninu Ungt fólk til athafna þar sem álag fer nú minnkandi. Þetta sjö manna teymi mun sjá um stjórn verkefnisins á suðvesturhorni landsins þar sem um 3.200 af um 4.000 langtímaatvinnulausra eru. Annars staðar mun teymið vinna í samstarfi við þjónustuskrifstofur Vinnumálastofnunar í hverjum landshluta.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert