Ræddu öryggi í jarðgöngum

Hvalfjarðargöng fá ekki háa einkunn varðandi öryggi.
Hvalfjarðargöng fá ekki háa einkunn varðandi öryggi. Árni Sæberg

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristján L. Möller, átti í morgun fund með Hreini Haraldssyni, vegamálastjóra, um öryggi í jarðgöngum á Íslandi. Ráðuneytið telur það mjög alvarlegt hve margar aðfinnslur koma fram í skýrslu um ástand öryggismála í Hvalfjarðargöngum og mun yfirfara vandlega þau sjónarmið sem þar koma fram.

Ráðuneytið telur afar mikilvægt að þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, vandi til verka og byggi mat sitt á eins áreiðanlegum forsendum og gögnum og mögulegt er. Það verður að vera hafið yfir allan vafa að Hvalfjarðargöng uppfylli allar þær öryggiskröfur sem gilda á evrópska efnahagssvæðinu um slík jarðgöng.

Á fundi ráðherra og vegamálastjóra kom fram að þegar liggur fyrir úttekt Vegagerðarinnar á öryggismálum jarðganga sem eru í notkun hér á landi og samanburður við þær öryggiskröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 992/2007 um öryggiskröfur fyrir jarðgöng, sem undirrituð var þann 27. október 2007. Reglugerðin byggir á þeim kröfum sem settar eru í tilskipun Evrópusambandsins um öryggiskröfur fyrir jarðgöng í evrópska vegakerfinu.

Á fundinum kom einnig fram að Vegagerðin gerði í kjölfar setningar reglugerðarinnar áætlun um endurbætur varðandi öryggismál jarðganga í vegakerfinu og undirbjó aðgerðaáætlun fram til ársins 2014 um það sem bæta þarf til að tryggja að öryggismál í jarðgöngum hér á landi séu að öllu leyti í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Jafnframt liggur fyrir að Spölur vinnur eftir áætlun um úrbætur í öryggismálum fyrir Hvalfjarðargöng.

Vegagerðin mun á næstu dögum yfirfara allar ábendingar sem fram komu í skýrslu samtakanna um öryggismál í Hvalfjarðargöngum og meta gildi þeirra með hliðsjón af þeim öryggiskröfum sem gilda eiga um mannvirkið. Ráðuneytið mun í kjölfar þeirrar vinnu meta þörf fyrir frekari aðgerðir.

Í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu segir að rétt sé að vekja athygli á því að öll jarðgöng, sem tekin hafa verið eða verða tekin í notkun eftir gildistöku ofangreindrar reglugerðar, eru hönnuð með hliðsjón af þeim öryggiskröfum sem þar eru skilgreindar.

Að endingu vill ráðuneytið vekja athygli á drögum að reglugerð sem birt hafa verið til umsagnar á heimasíðu ráðuneytis um flutning á hættulegum farmi á landi. Frestur til að koma á framfæri athugasemdum við drögin er til 11. ágúst næstkomandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert