Samdráttur í smásölu milli ára 11%

Velta smásöluverslana hefur dregist saman undanfarin ár
Velta smásöluverslana hefur dregist saman undanfarin ár mbl.is/Eggert Jóhannesson

Velta í smásöluverslun á síðasta ári nam 294,5 milljörðum króna á Íslandi. Samdráttur í veltu smásöluverslunar árið 2009 nam 11% að raunvirði frá árinu áður og frá árinu 2007 nam samdrátturinn alls 15,5%. Árið 2009 störfuðu alls 21.200 manns við verslun á Íslandi, eða tæp 12,6% af heildarvinnuafli þjóðarinnar. Þar af voru karlar 12.600 en konur 8.600 talsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Árbók verslunarinnar 2009.
 
 Árið 2009 var raunsamdráttur í byggingarvöruverslun um 45,5%, í raftækjaverslun 35,7% og 25,6% samdráttur í húsgagnaverslun.
 
Hlutur verslunar í landsframleiðslu var 10,5% árið 2009 og hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin áratug.
 
Í janúar 2009 var fermetrafjöldi verslunarhúsnæðis á Íslandi 1.157.922 m2 eða 3,6 m2 hvern íbúa landsins.  Fermetrafjöldi verslunarhúsnæðis jókst um 6,6% frá sama tíma árið áður.

Heildarlaun afgreiðslufólks í sérvöru- og matvöruverslunum voru 238 þúsund að miðgildi árið 2009, samanborið við 370 þúsund ef horft er til allra starfsstétta
 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert