Segist ekki hafa falið eignir

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Jón Ásgeir Jóhannesson segir í samtali við Bloomberg að hann hafi ekki reynt að fela eignir í Bretlandi. Í fréttaskýringu á fréttaveitunni segir að frysting eigna fyrrum eigenda og stjórnenda Glitnis sé sambærileg frystingu eigna BTA-bankans í Kazakhstan og Intercontinental bankans í Nígeríu.

Í fréttinni er málarekstur slitastjórnar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni rakinn. Fram kemur að í málum af þessum tagi sé nokkuð algengt að leitað sé til breskra dómstóla um frystingu eigna. Ástæðan sé sú að dómstólar í Bretlandi séu fljótir að bregðast við. Haft er eftir Christopher Style lögfræðingi hjá Linklaters í London að hann hafi einu sinni náð fram frystingu eigna með einu símtali við dómara meðan hann var að spila krikket.

Helen Carty, lögfræðingur hjá Clifford Chance, segir að málum þar sem krafist er frystingu eigna vegna gruns um svik sé að fjölga. Hún segir líkt og Style að ástæðan sé m.a. hversu dómstólar í Bretlandi séu fljótir að bregðast við.

Haft er eftir Jóni Ásgeiri að hann sé undrandi á ákvörðun slitastjórnar að fara fram á frystingu eigna. Það sé ekki rétt sem slitastjórn haldi fram að hann eigi eignir í Bretlandi að verðmæti 202 milljónir punda. Hann segir að verið sé að nota breskt réttarkerfi til að ná fram aðgerðum gegn sér sem myndu ekki standast í nokkru öðru réttarkerfi. Hann hafnar því að hafa reynt að fela eignir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert