Umferðin gekk vel um helgina, að sögn Sigurðar Helgasonar hjá Umferðarstofu, sem lengi hefur fylgst með umferðinni þessa helgi. „Eftir rúmlega 20 ára viðveru er þetta með rólegri verslunarmannahelgum sem ég hef upplifað,“ segir hann.
Bæði sé minni umferð og minna um slys og óhöpp. Þá dreifist umferðin líka betur en oft áður. Seinni partinn í gær voru um 120 bílar á leiðinni til Reykjavíkur eftir Suðurlandsvegi á hverjum tíu mínútum, þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.
Á sama tíma á sama degi í fyrra voru um 200 bílar á sömu leið á hverjum 10 mínútum. Umferðin var því talsvert minni í ár en sveiflaðist eftir ferðum Herjólfs til og frá Eyjum.