Ekki auðvelt að eyða lúpínu með eitri

Lúpína er öflug jurt.
Lúpína er öflug jurt. mbl.is/RAX

Tilraunir til að eyða lúpínu í Þórsmörk með  illgresiseitrinu Roundup hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Í ljós hefur komið að eitrunin eyddi öðrum gróðri, þ.á m. trjágróðri, en lúpínan var fljót að spretta upp af fræi aftur.

Þetta kemur fram í frétt frá Skógrækt ríkisins. Allt frá því um 1950 hefur lúpínu verið sáð í mela, flög og skriður víða í Þjóðskógum landsins. Í fréttinni segir að á mörgum þessara svæða sé lúpína nú horfin með öllu og skógur vaxinn upp. „Hún var notuð sem tæki við uppgræðslu og endurheimt skóga og hefur víðast hvar gegnt því hlutverki með ágætum.“

Í Þórsmörk voru gerðar tilraunir árin 2007-2009 til að eyða lúpínu með illgresiseitrinu Roundup. Í ljós hefur komið að eitrunin eyddi öðrum gróðri, þ.á m. trjágróðri, en lúpínan var fljót að spretta upp af fræi aftur. Ljóst þykir að lúpínan verði í framhaldinu meira einráð á þessum svæðum en ef ekkert hefði verið gert og enn lengra sé í að annar gróður taki við af henni. Virðist úðun með Roundup plöntueitri því ekki vera ákjósanleg leið til flýta fyrir því að lúpína hverfi af svæðinu og því síður til að stuðla að því að lúpínan hopi fyrir öðrum gróðri.

Skógræktarmenn íhuga nú hvernig flýta megi framvindu birkiskóga, sem bæði njóta góðs af lúpínunni og skyggja hana út að lokum. Ein af lausnunum gæti verið áburðargjöf á þann skógargróður sem vex upp með lúpínunni t.d. með stórum skömmtum af lífrænum áburði eins og kjötmjöli. Munu verða gerðar prófanir í þessa veru á næstu misserum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert