Vegna framleiðslugalla sem komið hefur í ljós í stálvirki fyrir glerhjúp á suðurhlið Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, hafa Íslenskir aðalverktakar, ÍAV krafist þess af framleiðanda glerhjúpsins, að stálvirki suðurhliðar hússins verði tekið niður og nýtt framleitt og sett upp, á þeirra kostnað. Framleiðandinn hefur fallist á þessa kröfu og er undirbúningur að endurframleiðslu þegar kominn á fullan skrið. Þessi framkvæmd mun ekki seinka opnun hússins í maí á næsta ári.
Um mitt ár 2007 bauð ÍAV út glerhjúp Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu á alþjóðlegum markaði. Tilboð barst, frá kínverska fyrirtækinu Lingyun sem hefur byggt fjölda stórbygginga. Lingyun réð Shipyard Wuhan sem undirverktaka til að framleiða stálhluta glerhjúpsins. ÍAV gerði samning við stórt kínverskt eftirlitsfyrirtæki í ríkiseigu, CCIC, um framleiðslueftirlit í Kína. Öll þessi fyrirtæki hafa fengið alþjóðlega gæðavottun skv. ISO 9001. Samningurinn við Lingyun er svokallaður „Design and Build“ samningur, þ.e. Lingyun á að annast fullnaðarútreikninga glervirkisins, framleiðslu og uppsetningu og ber ábyrgð á öllum þáttum þess.
Hluti af stálvirki glerhjúpsins er gert úr svonefndri stálsteypu (cast steel). Þetta eru hornin á kubbunum sem er raðað upp og mynda svokallaðan „Quasi brick“ vegg á suðurhlið hússins. Í ágúst 2008 var fyrsta hornið afhent og var það sent til háskólans í Karlsruhe í Þýskalandi sem prófaði efnasamsetningu þess og gaf því hæstu einkunn skv. þýskum stöðlum. Í janúar 2009 var gerð tilraun með fullgerða kubba í háskólanum í Wuhan upp á reikningslegt hámarksálag. Ekkert athugavert fannst og stóðust kubbarnir álagsprófið með prýði.
Á árinu 2009 var byrjað að senda stálkubbana til Íslands og hófst uppsetning þeirra í lok árs. Í marsmánuði 2010 uppgötvaðist sprunga í horni á einum kubbnum. Sérfræðingar ÍAV hófu þegar rannsókn og leituðu einnig til sérfræðinga á málmtæknideild Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og verkfræðistofunnar Eflu.
Niðurstaðan var að um væri að ræða gamla sprungu sem ætti upptök sín í framleiðsluferlinu þar sem umrætt horn hefði verið of lengi fast í mótinu. Samtímis gerði ÍAV rannsóknir sem gengu lengra og beindust að fleiri atriðum en sprungunni. Í þeim rannsóknum kom í ljós að efnasamsetning stálsteypunnar var ekki lengur í samræmi við upphaflega efnasamsetningu og uppfyllti ekki lengur þær kröfur sem höfðu verið settar fram í gögnum ÍAV.
ÍAV kallaði þá á ný til sérfræðinga í stálsteypu frá háskólanum í Karlsruhe og komu þeir til Íslands í byrjun maí 2010. Niðurstaða þeirra var að efnið væri líklega mjög sterkt en gæti verið stökkt. Það þyrfti hins vegar ekki að tákna að kubbarnir væru ónothæfir. Ráðlögðu þeir að gera tilraun á heilum hornum. ÍAV skar í sundur heilan kubb og sendi til Þýskalands auk smásýna.
Lingyun var gert ljóst að svo kynni að fara að taka þyrfti niður alla suðurhliðina en fyrirtækið ákvað þrátt fyrir það að halda áfram og reisa stálvirkið. Dagana 21.-23. júlí 2010 fóru fulltrúar ÍAV og Lingyun til Karlsruhe til að vera viðstaddir prófanir á heilum hornum en þær áttu að skera úr um hvort hægt væri að nota kubbana eða ekki. Niðurstöður voru þær að stálsteypan væri of stökk og gæti það valdið broti í hornunum.
Í byrjun síðustu viku tilkynnti ÍAV undirverktaka sínum og verkkaupa að fyrirtækið teldi ekki ásættanlegt að nota stálvirkið í suðurhliðinni. Stálið væri að vísu sterkara en það þyrfti að vera en á hinn bóginn væru hornin stökk og skapaði það áhættu sem sérfræðingar geti ekki metið til fulls og teldi ÍAV það ekki verjandi.
Eins og áður segir hefur ÍAV krafist þess að Lingyun taki niður stálvirki suðurhliðar hússins, framleiði það að nýju og setji upp, allt á sinn kostnað. Á þessa kröfu hefur Lingyun fallist og er undirbúningur að endurframleiðslu þegar kominn á fullan skrið. Þessi framkvæmd mun ekki seinka opnun hússins í maí á næsta ári eins og áður sagði.