Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, var sjálfur viðstaddur viðtöl við þá tvo umsækjendur um embætti umboðsmanns skuldara sem boðaðir voru í viðtal 20. júlí sl. Einnig voru viðstaddir aðstoðarmaður ráðherrans, ráðuneytisstjórinn og framkvæmdastjóri ráðningafyrirtækisins STRÁ MRI.
Þetta kemur m.a. fram í skriflegum rökstuðningi félags- og tryggingamálaráðuneytisins fyrir skipan í embætti umboðsmanns skuldara. Ásta Sigrún Helgadóttir, annar umsækjendanna tveggja sem kallaðir voru í viðtal óskaði eftir rökstuðningnum. Hann hefur nú verið birtur á heimasíðu ráðuneytisins.
Hinn umsækjandinn sem boðaður var í viðtal var Runólfur Ágústsson, sem var ráðinn. Hann sagði af sér í gærkvöldi, að kvöldi fyrsta dags síns í embætti.
Í frétt ráðuneytisins segir að í kjölfar viðtalanna hafi ráðningarfyrirtækinu verið falið að gera ítarlegt hæfnismat á hvorum umsækjendanna fyrir sig.
„Var þar tekið mið af almennum hæfisskilyrðum sem sett voru í auglýsingu um embættið, auk annarra málefnalegra sjónarmiða sem ráðuneytið taldi nauðsynlegt að leggja til grundvallar. Var sérstaklega litið til reynslu og þekkingar umsækjendanna sem nýst gætu í starfi, mat á leiðtogahæfni, sjálfstæði og fagmennsku í vinnubrögðum, hæfni í mannlegum samskiptum og færni til að tjá sig í ræðu og riti.
Horft var til frammistöðu umsækjenda í starfsviðtali og tekið mið af umsögnum um þá sem aflað hafði verið. Við mat á umsækjendum um embætti umboðsmanns skuldara var ekki litið til persónulegra fjárreiðna þeirra og í auglýsingu voru engar skilgreindar kröfur hvað það varðar enda þess ekki krafist í lögum um umboðsmann skuldara,“ segir m.a. í fréttinni.
Í skriflegum rökstuðningi til Ástu Sigrúnar kemur fram að Runólfur Ágústsson hafi verið metinn hæfasti umsækjandi. Þar segir m.a.: „Runólfur Ágústsson var talinn best til þess fallinn að gegna embættinu og ákvað ráðherra því að skipa hann til að gegna því.“