Ljóst er að frumvarpi landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögum er ætlað að koma í veg fyrir þann vísi að samkeppni í mjólkurframleiðslu á Íslandi sem skapast hefur á undanförnum árum, m.a. með stofnun mjólkursamlagsins Mjólku á sínum tíma.
Þetta er í samræmi við ákvæði búvörulaganna um að samkeppnissjónarmið eigi ekki við þegar framleiðsla á mjólkurafurðum er annars vegar.
Samkvæmt frumvarpinu verða þeir bændur og framleiðendur sem starfa ekki innan ramma styrkjakerfis ríkisins, þ.e. utan greiðslumarks, beittir hörðum viðurlögum setji þeir svokallaða umframmjólk í sölu á innanlandsmarkað. Þannig verða mjólkursamlög sektuð um 110 krónur fyrir hvern mjólkurlítra sem seldur er með þeim hætti. Þá segir að um refsiábyrgð lögaðila vegna slíkra brota fari samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.
Orðrétt segir í frumvarpinu að yrði „mjólk utan greiðslumarks markaðsfærð á innanlandsmarkaði fæli það í sér að markaðshlutdeild greiðslumarkshafa minnkaði og útflutningsskylda þeirra ykist sem því næmi, enda yrði að lækka heildargreiðslumark mjólkur. Við það öðlaðist slík framleiðsla aðgang að innanlandsmarkaði umfram framleiðslu innan greiðslumarks.“
Tekið er fram í greinargerðinni með frumvarpinu að slík heimaframleiðsla geti „aldrei orðið nema lítið brot af mjólkurframleiðslunni í landinu“. M.ö.o. að hún skerði óverulega markaðshlutdeild þeirra mjólkurafurða sem seldar eru innan kerfisins. Þá er tekið skýrt fram að ekki sé hægt að ganga lengra í ívilnunum sem þessum án þess að raska búvörusamningi ríkisins við bændur.
„Það er alltaf verið að tala um að matarverð verði að lækka á Íslandi. Hvað er þá að því ef við getum selt mjólkina 40 krónum ódýrar til neytenda?“ spyr Bjarni.