Spáð er einhverri vætu um mikinn hluta landsins á föstudag og fram á laugardag, samfara lítilli lægð sem verður á ferðinni fyrir vestan og sunnan landið, samkvæmt spá Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings. Það gæti því rignt á gesti Hinsegin daga sem tug þúsundir fylgjast með á hverju ári.
Gangan verður haldin í miðborginni á laugardag. Fyrir norðan er von fleiri þúsund manns til Dalvíkur en þar verður Fiskidagurinn mikli haldinn á laugardag.
Á sunnudag glaðnar hins vegar til og þá er útlit fyrir að alveg þurrt og bjart verði víðast hvar.
Föstudagur 6. ágúst:
Úrkomubakki kemur að landinu úr vestri og frá honum er spáð rigningu um vestanvert landið. Vestantil verður strekkingsvindur með þessu af suðri og suðaustri, sums staðar 10-13 m/s yfir miðjan daginn, en lægir síðan. Úrkomubakkinn verður á austurleið og því má reikna með einhverri vætu í flestu landshlutum þegar líður á daginn og annað kvöld. Austanlands verður þó víðast þurrt og fram eftir degi hið besta veður, léttskýjað og hiti víða 15 til 18 stig.
Laugardagur 7. ágúst:
Reiknað er með að skýjað verði meira og minna á landinu og víða einhverjar skúraleiðingar. Allt að því samfeld rigning eða súld sums staðar sunnan- og suðaustanlands. Staðbundið gæti þó haldist alveg þurrt, einkum norðaustanlands og á Vestfjörðum og um norðanvert landið rofar mikið til undir kvöldið. Vindur verður af suðaustri eða austri, yfirleitt fremur hægur. Hitinn allt að 17 til 19 stig norðan- og norðaustanlands, en kólnar þar um nóttina í bjartviðrinu niður í um 4 til 6 stig.
Sunnudagur 8. ágúst:
Útlit er fyrir þurrt veður um nánast allt land og víða nær sólin að skína glatt. Þó verður hafátt norðan- og austanlands og sums staðar þoka við ströndina og eins suddi fyrst um morguninn allra syðst. Fremur hlýtt verður sunnan- og suðvestanlands, allt að 18 til 20 stiga hiti þar. Eins verður ágætis hiti á hálendinu og inn til landsins norðan- og austanlands.