Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og aðstoðarmaður hennar, Hrannar B. Arnarsson, voru meðal farþega í einni af þeim farþegaþotum sem þurftu að lenda á Reykjavíkurflugvelli í morgun, sökum þoku í Keflavík.
Pressan greinir frá þessu og segir að farþegar hafi þurft að sitja í vélunum á Reykjavíkurflugvelli þar til hægt var að fljúga til Keflavíkur.
Starfsfólk farþegaþotunnar, sem var að koma frá Kanada, hafi þó boðið Jóhönnu og föruneyti hennar að ganga frá borði á Reykjavíkurflugvelli en hún hafi hafnað boðinu með orðunum: „Eitt skal yfir alla ganga.“
Ráðherrann hafi því setið sem fastast þar til þokunni létti og flogið var til Keflavíkurflugvallar þar sem farþegar komust loks frá borði eftir töfina.