Fundarlok óráðin

Frá fundi slökkviliðsmanna og Launanefndar sveitarfélaga.
Frá fundi slökkviliðsmanna og Launanefndar sveitarfélaga. mbl.is/Ómar

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna telur, að það sé verkfallsbrot ef Flugfélag Íslands færir flug frá Akureyri til Húsavíkur ef af dagsverkfalli slökkviliðsmanna verður á morgun.

Sáttafundur slökkviliðsmanna og launanefndar sveitarfélaga, sem hófst klukkan 13:30, stendur enn. Fundurinn er í húsakynnum ríkissáttasemjara og undir hans stjórn.

Takist ekki að semja munu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn fara í verkfall á morgun. Það mun standa frá klukkan 8 árdegis til klukkan 12 á miðnætti. Fyrirkomulag verkfallsins verður með sama sniði og í verkfallinu 23. júlí síðastliðnum nema nú stendur það átta klukkutímum lengur.

Komi til verkfalls verður varðstöðu á Akureyrarflugvelli  ekki sinnt frá klukkan 8 til 24 á morgun. Flugfélag Íslands hefur boðað, flug frá Reykjavík verði fært frá Akureyri til Húsavíkur.

Í tilkynningu frá Landssambandi slökkviliðsmanna segir, að flytja þurfi starfsmenn til Húsavíkur, bæði flugvallarstarfsmenn og slökkviliðsmenn, komi til þessa. Telji landssambandið, að félagsmenn einstakra stéttarfélaga, sem vinna við innanlandsflug, gætu framið verkfallsbrot með því að ganga í þau störf sem félagsmenn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sinni ekki í löglega boðuðum verkfallsaðgerðum. 

Mbl.is náði tali af Valdimar Leó Friðrikssyni, framkvæmtastjóra Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, en hann situr á kjarafundinum. Hann sagði flest stefna í verkfall á morgun en verið sé að skoða ákveðnar hugmyndir þó svo fátt nýtt væri í stöðunni.

Nú sé verið að ræða hvort Húsavíkurflugið kunni að vera verkfallsbrot. „Það vefst ekki fyrir mér að með því að láta óvana menn ganga inn í slökkviliðsstörf sé öryggi almennings ógnað,“ segir Valdimar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert