Dæmi eru um að fólk þurfi að bíða í viku eftir að fá tíma hjá lækni hjá heilsugæslustöð í Reykjavík. Ástæðan er sumarleyfi lækna, veikindi og lokun síðdegisvaktarinnar.
Á heilsugæslustöðinni í Árbæ í Reykjavík er núna óvenjulega löng bið eftir tíma hjá lækni, en ekki er hægt að fá tíma fyrr en á fimmtudaginn í næstu viku. Ingibjörg Sigmundsdóttir hjúkrunarforstjóri segir þetta óvenjulegt ástand yfir sumartímann, sem skýrist af sumarleyfum lækna og veikindum starfsfólks. Ástandið hafi verið mun betra í síðustu viku.
Vegna sparnaðar var ákveðið að loka síðdegisvakt á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í tvo mánuði í sumar. Þeirri lokun líkur 16. ágúst. Reyndar var ákveðið að hætta við lokun á nokkrum stöðvum. Þessar lokanir hafa leitt til þess að ekki er eins auðvelt og áður að fá tíma hjá lækni.
Gunnar Helgi Guðmundsson, yfirlæknir á heilsugæslustöðinni í Efstaleiti, segir bið eftir lækni á heilsugæslustöðinni hafi verið talsverð í júlí vegna sumarleyfa og vegna þess að síðdegisvakt hafi verið felld niður í tvo mánuði í sumar. Staðan í Efstaleiti sé mun betri núna enda læknar að koma úr sumarleyfi. Hann segir að staðan sé án efa eitthvað misjöfn milli heilsugæslustöðva. Starfsfólk heilsugæslunnar hafi reynt að forgangsraða með því að taka strax inn þau tilfelli sem ekki hafi verið talin geta beðið.
Samkvæmt upplýsingum frá læknastofunni Heilsuvernd í Kópavogi er enginn biðtími þar eftir lækni og hægt að fá tíma samdægurs.