Sauðaþjófar sem veiða sér til matar

Sauðfé
Sauðfé mbl.is/Golli

Fréttavefurinn Skessuhorn segir frá því í dag að borið hafi á sauðaþjófnaði í tvígang í Borgarfirði og Dölum í vikunni. Síðast í gær hafi fundist leifar af lambi í Norðurárdal og hafði kjötið af því verið hirt. Sambærilegt hræ fannst að sögn Skessuhorns undir brú yfir Miðá í Mið-dölum á mánudaginn.

Að sögn lögreglunnar í Borgarbyggð og Dölum voru aðfarir svipaðar á báðum stöðum og þjófurinn virðist kunna vel til verka. Skessuhorn hefur eftir Helga Kristjánssyni, fyrrum frístundabónda í Ólafsvík, að líklega sé um að ræða ævintýragjarna ferðamenn. „Ég þori að fullyrða að þetta eru ekki Íslendingar, heldur tel ég að þarna séu á ferð útlendingar sem koma til landsins í þeim tilgangi að lifa á landinu," sagði Helgi í samtali við Skessuhorn.

Helgi telur að ferðamenn í þessum hugleiðingum ferðist um á húsbílum og veiði sér til matar. Hann hafi sjálfur þurft að reka nokkra slíka úr veiðivötnunum. Í fyrra hafi nokkur lömb horfið við Jökulháls og víða á Snæfellsnesi og telji hann sauðaþjófa ábyrga fyrir því, þeir ferðist um fáfarna vegi og séu á ferð snemma dags. „Þó svo að Íslendingar séu engir englar þá kunna þeir þetta ekki og nenni þessu ekki. Ég tel að fólk verði að gefa þessu ferðafólki gaum," hefur Skessuhorn eftir Helga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert