Evrópuflugi Icelandair seinkar í dag vegna þess að vélar félagsins sem voru að koma frá Bandaríkjunum í morgun þurftu að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Þær eru nú allar farnar til Keflavíkur og verða væntanlega allar farnar í loftið á ný fyrir klukkan 11, að sögn Guðjóns Arngrímssonar, talsmanns Icelandair.
Hann segir að þetta þýði að flugvélar Icelandair sem væntanlegar eru til landsins síðdegis verði einnig seinar og biður farþega félagsins að fylgjast vel með tilkynningum um komur og brottfarir.
Vonir standi hins vegar til að allt millilandaflug Icelandair verði á áætlun á morgun.
Fimm farþegaþotur Icelandair og Iceland Express þurftu að lenda í Reykjavík í morgun vegna þoku í Keflavík. Farþegarnir fengu ekki að yfirgefa vélarnar í Reykjavík heldur þurftu þeir að bíða í vélunum á flugvellinum.