Slökkviliðsmenn í verkfall

Frá fundi slökkviliðsmanna og launanefndar sveitarfélaga í dag.
Frá fundi slökkviliðsmanna og launanefndar sveitarfélaga í dag. mbl.is/Ómar

„Það verður verkfall á morgun, það  er ljóst,“ sagði Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, rétt fyrir klukkan ellefu í kvöld. Ljóst var þá að boðað 16 stunda langt verkfall slökkviliðsmanna hefst klukkan 8 í fyrramálið.

Valdimar sagði, að samningaviðræðum væri lokið í bili. „Þetta voru góðar umræður en engin niðurstaða liggur hins vegar  fyrir. Það er dálítið í land með það,“ sagði hann. 

„Það er búið að tala saman bókstaflega í allan dag en það er engin niðurstaða komin í málið ennþá,“ sagði Inga Rut Ólafsdóttir, formaður launanefndar sveitarfélaga í samtali við Morgunblaðið. 

Inga segir engar sérstakar nýjar kröfur hafa komið fram á fundinum. „Það er búið að ræða eitt og annað í dag en það hefur ekkert  nýtt komið fram sem hægt er að ræða sérstaklega.“

Ekki er búið að ákveða hvenær næsti fundur verður haldinn. „Menn eru að minnsta kosti að tala saman núna, það eru jákvæðu tíðindin,“ sagði Inga Rún.

Flugfélag Íslands gerir ráðstafanir

Ekki verður varðstaða slökkviliðsmanna á Akureyrarflugvelli á morgun vegna verkfallsins. Hefur Flugfélag Íslands gert ráðstafanir til að flýta fyrstu tveimur brottförum morgundagsins þannig að flugvélar lendi á Akureyri og fari þaðan aftur áður en til boðaðs verkfalls kemur.

Flugfélagið áformar, að önnur flug frá Reykjavík verði til Húsavíkur. Verða farþegar  fluttir með hópferðabílum milli flugvalla á Akureyri og Húsavík.

Slökkviliðsmenn lýstu í dag þeirri skoðun, að það væri verkfallsbrot ef félagsmenn einstakra stéttarfélaga, sem vinna við innanlandsflug, gangi í þau störf sem félagsmenn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sinni ekki í löglega boðuðum verkfallsaðgerðum. Akureyrarflugvöllur er eini flugvöllurinn þar sem félagar í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sjá um varðstöðu. Á öðrum völlum, þar sem slík varðstaða er, eru slökkviliðsmenn starfsmenn Isavia.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia verður brugðist við óskum Flugfélags Íslands og settur upp aukinn öryggisviðbúnaður á Húsavíkurflugvelli til að geta sinnt fluginu. Það sé ekki hlutverk Isavia að taka afstöðu til kjaradeilu slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna.

Segja slökkviliðsstjóra fara með ósannindi

Fulltrúar starfsmanna Slökkviliðs Akureyrar sendu í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir megnri óánægju með, ósannindi sem þeir segja slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akureyrar fara með í grein í Fréttablaðinu 30. júlí sl. varðandi frítökurétt starfsmanna.

Þar var haft eftir slökkviliðsstjóranum, að menn væru að fá allan  frítökuréttinn sinn í formi fría og það kæmi fram á launaseðlum.

„Þessi fullyrðing er ósönn og vegur að starfsmönnum Slökkviliðs Akureyrar, fulltrúum þeirra og framkvæmdastjóra Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) sem um árabil hafa farið þess á leit við slökkviliðsstjóra og embættismenn Akureyrarbæjar að frítökuréttur starfsmanna verði virtur.

Fulltrúar og starfsmenn SA, sem og framkvæmdastjóri LSS, harma það að slökkviliðsstjóri hafi ekki beðist afsökunar á ummælum sínum og dregið þau opinberlega til baka líkt og honum var gefinn kostur á," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert