Spurning um tilverurétt Ríkisútvarpsins

Pálmi Gestsson.
Pálmi Gestsson. mynd/bb.is

Pálmi Gestsson, leikari, segir í viðtali við blaðið Bæjarins besta á Ísafirði í dag, að búið sé að þrengja svo mikið að Ríkisútvarpinu, að spurning sé nú hvort þessi stofnun eigi einhvern tilverurétt lengur án þess að framleiða  efni eða gera yfirleitt það sem hún eigi að gera.

„Það virðist komið að þeim tímapunkti að eigendur stofnunarinnar [Ríkisútvarpsins] þurfa að ákveða hvort þeir ætla að leggja hana niður alfarið. Búið er að skera það mikið niður og þrengja það mikið að henni að spurningin er hvort hún á einhvern tilverurétt lengur án þess að framleiða neitt efni eða gera yfirleitt það sem hún á að gera. Einn góðan veðurdag hlýtur að koma að því að það er skorið svo mikið niður og svo mörgum sagt upp, að það er ekki eru lengur forsendur fyrir því að reka útvarp og sjónvarp,“ segir Pálmi við Bæjarins besta. 

Fram kemur í viðtalinu, að óvíst sé hvort dagar Spaugstofunnar í Sjónvarpinu eru taldir eða hvort hún verður á dagskrá einn veturinn enn.

„En Spaugstofan deyr held ég aldrei sem fyrirbæri. Þetta sem átti fyrir rúmum tuttugu árum að vera fjórir þættir til að byrja með og í mesta lagi einn vetur sem aukastarf er eiginlega orðið að ævistarfi“, segir Pálmi. „Mér finnst það forréttindi að hafa tilheyrt þessum hópi, Spaugstofunni, og hafa fengið að eiga í gegnum hana þetta mikilvæga samtal við þjóðina allan þennan tíma. Þáttur eins og Spaugstofan er nefnilega ekki einfaldur skemmtiþáttur heldur nauðsynlegur þáttur í hinni lífspólitísku umræðu þjóðfélagsins á hverjum tíma. Ég tel það skyldu ríkissjónvarps að hafa þessa tegund dagskrárgerðar á sinni könnu og sjálfsagða og nauðsynlega þjónustu við þjóðina. Svo geta menn haft allar skoðanir á því í hvaða formi slík dagskrárgerð á að vera og hverjir eigi að sinna henni.“

bb.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert