Bæjarstjórn Seyðisfjarðar segir að í nýlegri úttekt Euro RAP á íslenska vegakerfinu fær vegurinn yfir Fjarðarheiði slæma útkomu. Er leiðin skilgreind sem einn hættulegasti vegur landsins.
„Væru vegamót á leiðinni milli Seyðisfjarðar og Héraðs fleiri en raun ber vitni fengi vegurinn aðeins tvær stjörnur af fimm fyrir öryggi en í skýrslunni er bent á að vegurinn yfir Fjarðarheiði er mjög hár, brattir fláar á honum nánast alla leið og er leiðin eftir því hættuleg vegfarendum. Á sérstöku slysakorti Euro RAP (Risk Rate Map), sem byggt er á slysasögu með tilliti til lengdar vegar og umferðarmagns fær Fjarðarheiði aðeins eina stjörnu. Leiðin er með öðrum orðum skilgreind sem einn hættulegasti vegur landsins," segir í tilkynningu frá bæjarstjórn Seyðisfjarðar.
Þar segir að Seyðfirðingar hafi lengi bent á nauðsyn þess að ráðast í göng undir Fjarðarheiði og fyrir því eru bæði öryggissjónarmið og mörg önnur rök hvað varðar atvinnulíf, skólasókn og mannlíf almennt.
Bæjarstjórn Seyðisfjarðar ítrekaði í síðasta mánuði þá kröfu Seyðfirðinga að Fjarðarheiðargöng verði sett inn á samgönguáætlun stjórnvalda við endurskoðun hennar í haust. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs lýsti fullum stuðningi við þetta baráttuefni Seyðfirðinga á fundi sínum í síðustu viku.
„Bæjarstjórn Seyðisfjarðar minnir á að Fjarðarheiðargöng eru eini akvegurinn til og frá Seyðisfirði, vegur sem fer í rúmlega 620 metra hæð. Truflanir á vetrarsamgöngum eru tíðar, með tilheyrandi óöryggi og óþægindum fyrir íbúa Seyðisfjarðar og aðra þá sem veginn nota. Barátta fyrir göngum undir Fjarðarheiði hefur staðið í um 30 ár og er að mati Seyðfirðinga ekki ásættanlegt annað en Fjarðarheiðargöng verði sett á áætlun stjórnvalda nú í haust þannig að ekki sé vafi um að í gerð þeirra verði ráðist," segir í tilkynningu frá bæjarstjórninni.