Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn afhentu í morgun fulltrúum nokkurra sveitarstjórna yfirlýsingu þar sem sveitarstjórnir eru hvattar til að leiðrétta laun slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna til þess að neyðarþjónusta við íbúa landsins verði tryggð.
Annar hluti boðaðra verkfallsaðgerða Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, (LSS) hófst klukkan 8:00 í morgun.
„LSS harmar að enn þurfi að koma til aðgerða en telur ábyrgðina liggja hjá Launanefnd sveitarfélaganna, LN. Kjarasamningar LSS við LN hafa verið lausir frá 31. ágúst 2009 en á þeim tíma hefur LN ekki sýnt neinn vilja til sátta fyrr en í gær, 5. ágúst. Góður gangur var kominn í viðræður milli deilenda en fulltrúum LSS til mikillar undrunar, stóðu fulltrúar LN upp frá samningaborði undir miðnætti í gær," að því er segir í fréttatilkynningu frá LSS.
Til að vekja athygli sveitarstjórnarmanna á stöðunni í kjaradeilu LSS og Launanefndar sveitarfélaga (LN) afhentu slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn fulltrúum sveitarstjórna yfirlýsingu að morgni föstudags. Fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, í Fjarðabyggð, á Akureyri og Suðurnesjum var afhent slík yfirlýsing.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ætla að tendra í grilli á Austurvelli / Lækjartorgi í hádeginu, bjóða gestum og gangandi upp á pylsur og um leið vekja athygli á starfi sínu og starfsumhverfi, segir ennfremur í tilkynningu.