Mikið líf er nú í tuskunum á Aðaldalsflugvelli á Húsavík þar sem fyrsta vél Flugfélags Íslands lenti nú síðdegis, í stað þess að fljúga til Akureyrar vegna verkfalls slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.
Flogið verður til og frá Húsavík fram eftir kvöldi og eru fjórar vélar til viðbótar væntanlegar í kvöld, en verkfallinu lýkur á miðnætti og eftir það verður lent á Akureyri aftur samkvæmt áætlun. Þangað til mun rúta flytja flugfarþega áfram frá flugstöðinni til Akureyrar.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafa gagnrýnt Flugfélag Íslands
fyrir að fljúga til Húsavíkur á meðan verkfallið stendur og segja það í
raun verkfallsbrot. Engin mótmæli voru þó á Aðaldalsflugvelli við komu
vélarinnar.
Þvert á móti ríkir raunar hátíðarstemning í Aðaldal að sögn fréttaritara Morgunblaðsins, þar sem heimamenn taki aukinni umferð ferðamanna fagnandi en reglubundið farþegaflug hefur ekki verið til Húsavíkur í áraraðir. „Hér er stútfull flugstöð af fólki bæði að koma og fara, allt hefur gengið eins og smurt og hér er boðið upp á kaffi og meðlæti og Þingeyingar eru mættir með bæklinga að kynna Þingeyjarsýslu fyrir flugfarþegum, Dettifoss, Ásbyrgi og fleira."
Lítil sem engin starfsemi hefur verið í flugstöðinni í Aðaldal lengi og segjast heimamenn ekki hafa séð Fokker flugvél þar í mörg ár en Flugfélag Íslands hætti áætlunarflugi þangað um aldamótin.