Þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, hafa óskað eftir sameiginlegum fundi viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar vegna svara Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til nefndanna við fyrsta tækifæri. Meðal annars vegna þess að Seðlabankinn lét gera óháð lögfræðiálit á lögmæti gengistryggðra lána á síðasta ári og
að það lögfræðiálit hafi gefið til kynna að gengistryggingin kynni að
vera óheimil. Almenningur hafi ekki verið upplýstur um þessa niðurstöðu.
Í framhaldi af dómi Hæstaréttar þann 19. júní þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögleg voru fulltrúar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins boðaðir á sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar. Í framhaldi af þeim fundi sem haldin var 5. júlí voru stofnanirnar beðnar um svör við ákveðnum spurningum sem nú hafa borist, segir í tilkynningu frá þingmönnunum.
„Svörin eru þess eðlis að ekki er hægt að sætta sig við þau án frekari skýringa en þar kemur m.a. fram að mikið ósamræmi er í tölulegum gögnum stofnananna og að mati sérfræðings munar jafnvel hundruðum milljarða á tölulegum niðurstöðum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Alvarlegast í svörunum er þó að fram kemur að Seðlabankinn lét gera óháð lögfræðiálit á lögmæti gengistryggðra lána og að það lögfræðiálit hafi gefið til kynna að gengistryggingin kynni að vera óheimil. Í framhaldinu sendir aðallögfræðingur Seðlabankans frá sér minnisblað þar sem tekið er undir lögfræðiálitið. Óháða álitið og minnisblað aðallögfræðingsins eru dagsett 12. og 18. maí 2009. Seðlabanki Íslands hafði því ákveðna vissu fyrir því hver líkleg niðurstað málaferla yrði heilum þrettán mánuðum fyrir dóm Hæstaréttar.
Seðlabanki Íslands þarf að útskýra fyrir þingi og þjóð með hverjum hann deildi þessum upplýsingum og ef hann hélt þeim fyrir sig, þá hvers vegna. Gengistryggðu lánin voru stór hluti af uppgjörinu milli gömlu og nýju bankana sem fram fór um haustið 2009 og lögmæti þeirra mikilvert í því ferli. Til upprifjunar skal á það minnt að stórs hluti þingmanna og almenningur hefur lengi verið kallað eftir almennum aðgerðum til leiðréttingar á skuldum heimilanna, m.a. til að eyða þeirri óvissu sem skapaðist fyrir efnahagslífið í heild til lengri tíma litið, ef ekki yrði gripið slíkra aðgerða. Með upplýsingar frá Seðlabankanum um ofangreint lögfræðiálit eru meiri líkur en minni á því að Alþingi hefði tekið af skarið og náð saman um almennar aðgerðir og þar með eytt þeirri óvissu sem og þörfinni á málaferlum sem nú valda endurreisn efnahagslífsins óþolandi og óþarfa töfum.
Það er því krafa Hreyfingarinnar að fulltrúar Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og Bankasýslu ríkisins verði boðaðir á sameiginlegan fund efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar til að gera frekari grein fyrir þeim svörum sem fram eru sett í áðurnefndum bréfum dagsettum 27. júlí (FME) og 30. júlí (SÍ)."