„Norsk stjórnvöld gáfu í skyn fyrir ári að þau myndu íhuga að banna innflutning til Noregs á vörum sem eru unnar úr íslenskum makríl. Íslensk stjórnvöld svöruðu því og rökstuddu að makrílveiðar Íslendinga væru fullkomlega löglegar.“
Þetta segir Steinar Ingi Matthíasson sem fer fyrir íslensku viðræðunefndinni sem semur við Evrópusambandið, Noreg og Færeyjar um framtíðarstjórnun á makrílveiðum í N-Atlantshafi.
Tveir árangurslausir fundir voru haldnir í vor og viðræðum verður haldið áfram í haust. Íslendingar heimiluðu skipum sínum einhliða að veiða 130.000 tonn af makríl í sumar. Uppsjávarfiskútgerðir í Evrópusambandinu og Noregi hafa í kjölfarið hvatt til þess að sett verði innflutningsbann á allar ferskar og frosnar sjávarafurðir frá Íslandi.