Persónuvernd hefur úrskurðað að Creditinfo-Lánstrausti hafi verið óheimilt að reikna út og selja mat á lánshæfi manns án hans samþykkis. Fyrirtækið hafði selt umræddar upplýsingar til þriðja aðila og taldi hina heimildarlausu vinnslu vera á ábyrgð þess aðila. Í niðurstöðu Persónuverndar kemur fram að Creditinfo-Lánstrausts ber ábyrgð á þeirri vinnslu sem það sjálft framkvæmir og skal, með viðhlítandi ráðstöfunum, tryggja að heimild standi til þeirrar vinnslu sem það hefur með höndum.
Einstaklingur leitaði til Persónuverndar, en hann hafði fengið upplýsingar um útreikning á lánshæfi hans og líkum á því að nafn hans verði fært á vanskilaskrá sem fyrirtækið heldur.
Í bréfi mannsins til Persónuverndar sagði: „Ég hef loksins nú, níu mánuðum á eftir fyrirtækinu ATOZ, fengið fyrir tilstuðlan Persónuverndar tækifæri til að sjá þann spádóm sem Lánstraust/Creditinfo hefur gert um traust mitt og líkleg afdrif mín í viðskiptum á ókomnum tíma, að mér óvörum, og kýs að kalla „einstaklingsskor“. Þennan spádóm sinn hefur Lánstraust/Creditinfo gert aðgengilegan þriðju aðilum sem mér er hvorki kunnugt um hverjir né heldur hve margir, og þeir hafa tekið tilboðinu í andstöðu við vilja minn og í heimildarleysi af minni hálfu. Þetta tel ég vera með öllu ólíðandi og ósiðlegt.“
Creditinfo-Lánstrausts viðurkenndi að ekki væri heimild til vinnslu persónuupplýsinga um lánshæfi málshefjanda. Félagið hélt því hins vegar fram að „misnotkunin“ væri ekki á þess ábyrgð heldur áskrifanda, þ.e. fyrirtækinu ATOZ sem fékk upplýsingarnar. „Það er hins vegar hlutverk og skylda Creditinfo-Lánstrausts hf. sem ábyrgðaraðila vinnslu gagna um lánshæfi tiltekins einstaklings að tryggja sjálft með viðhlítandi ráðstöfunum að heimild standi til þeirrar vinnslu sem það framkvæmir. Umrædd vinnsla var á þess ábyrgð og bar því sjálfu að ganga úr skugga um að vinnslan væri heimil.“