Skylt að starfa saman við að vernda makrílstofninn

Sjávarútvegsráðuneytið segir, að Íslandi, Evrópumsambandinu, Færeyjum og Noregi, sé samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og  úthafsveiðisamningnum skylt að starfa saman að verndun makrílstofnsins og stjórnun veiða úr honum.

Ráðuneytið segir, að hagsmunaaðilar í veiðum og vinnslu á makríl í Noregi og Evrópusambandinu hafi undanfarna daga haft uppi fullyrðingar um að makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga séu óábyrgar og m.a. hvatt til banns við innflutningi á sjávarafurðum frá Íslandi og Færeyjum af þeim sökum.

Segir ráðuneytið, að Íslandi hafi lengi verið meinað að taka þátt í samningaviðræðunum en fyrr á þessu ári hafi loks verið tekin af öll tvímæli um að það hefði sess strandríkis að því er makrílveiðar varðar. Strandríkin hafi haldið tvo samningafundi til að freista þess að ná samkomulagi um heildarstjórnun veiðanna á þessu ári. Ekki náðist samkomulag en aðilar hefðu verið sammála um það í lok síðasta fundar að hann hefði verið jákvæður og að viðræðurnar hefðu farið fram í mjög góðum anda.

„Í ljósi þess að ekki náðist samkomulag um heildarstjórnun makrílveiðanna fyrir þetta ár tóku strandríkin hvert fyrir sig ákvörðun um takmörkun veiða sinna í ár og reið Ísland á vaðið. Eins og því miður gerist oft við slíkar aðstæður fóru samanlagðir einhliða kvótar fram úr þeim heildarafla sem Alþjóðahafrannsóknaráðið hafði lagt til. Ekki er rétt að reyna að draga Ísland og Færeyjar sérstaklega til ábyrgðar vegna þessa, enda liggur hún ekki síður hjá ESB og Noregi. Kjarni málsins er sá að það er sameiginleg ábyrgð strandríkjanna fjögurra að ná samkomulagi um  heildarstjórnun makrílveiðanna til að tryggja sjálfbærni þeirra," segir í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Ráðuneytið segir, að áskorun um að setja bann við innflutningi á sjávarafurðum frá Íslandi og Færeyjum sé því ekki á rökum reist. Þá fælu innflutningsbann og aðrar skyldar viðskiptaaðgerðir í sér skýlaus brot á EFTA-samningnum, GATT-samningnum og EES-samningnum.

Ákveðinn hefur verið fundur strandríkjanna fjögurra í október nk. þar sem leita á samkomulags um heildarstjórnun makrílveiðanna frá og með næsta ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert